Dýrlingar og daglegt brauð í Langadal
Efni og samhengi í AM 461 12mo
Útdráttur
Handritið AM 461 12mo er að líkindum skrifað á fjórða tug sextándu aldar. Það geymir leifar af dagatali og páskatöflu auk upplýsinga um kirkjuárið og minnisversum tímatalsútreikninga; einnig stök ákvæði Jónsbókar og Kristinréttar Árnabiskups. Þá fer í handritinu mikið fyrir bænum og áköllum, ekki síst þeim sem tengd eru mætti helgra nafna. Bænirnar eru ýmist á íslensku eða latínu og í handritinu er líka kver með latneskum söngvum á nótum. Í greininni er sérstaklega fjallað um bænirnar og söngvana og þau sett í samhengi við annað efni handritsins. Lögð er áhersla á að skýra hvernig þetta efni tengist hversdagslegum veruleika þeirra sem höfðu handritið undir höndum og varpar þannig ljósi á trúarlíf á íslandi undir lok kaþólsks siðar.