*Síðu Halls Saga ok sona hans

Höfundar

  • Jamie Cochrane Independent Scholar Höfundur

Útdráttur

Í þessari grein er rakin æfi tíundu aldar höfðingjans Síðu-Halls Þorsteinssonar, forfeðra hans, -mæðra og afkomenda með því að taka saman vísanir til þeirra í varðveittum heimildum, aðallega Íslendinga sögum og þáttum. Hallur er rakinn til helstu landnámsmanna, bæði í móður- og föðurætt. Þekktastur þeirra er Hrollaugur Rögnvaldsson sem nam land í kjölfar spásagnar um að fylgjur hans lægju til Íslands. Ættir Halls er raktar í óskyldum heimildum og ber vel saman að mestu leyti nema hvað ósamkvæmni gætir í nöfnum og fjölda sona hans. Sjálfur kemur hann jafnan fram sem göfuglyndur heiðingi áður en hann er meðal þeirra fyrstu til að taka kristni. Vísbendingar eru um pólitíska slægð hans og mikilvægasti viðburðurinn sem hann kemur við er kristnitakan árið 999/1000. Framganga hans á Alþingi er bæði til vitnis um friðarvilja og pólitískt raunsæi. Synir hans, Þorsteinn, Þiðrandi og Egill sýna mörg sömu einkenni en þó án þeirrar þolinmæði sem kemur fram hjá föðurnum. Ættir helstu biskupa, bókamanna og höfðingja á ritunartíma sagnanna eru raktar til Halls og sona hans. Með því að draga saman efni í *Síðu-Halls sögu og sona hans úr ólíkum áttum færir höfundur rök fyrir því að heimildirnar sýni heilsteypta mynd. Þrátt fyrir ósamræmi í ýmsum smáatriðum séu þær samhljóða í lýsingu helstu persóna og atburða. Til dæmis sé hugmyndin um fylgjurnar rauður þráður, sem og þemað um kristnitökuna. Ekkert bendir til að sérstök saga af þessu tagi hafi nokkru sinni verið rituð. Niðurstaðan er sú að sagan um Síðu-Hall og syni hans hefur mótast á munnlegu stigi. Án efa geymir hún einhvern sannleikskjarna en þar eð sögurnar hafa verið margsagðar og endursagðar hafa þær breyst og slípast í meðförum. Þegar nýju efni var bætt við þurfti það að falla að því sem fyrir var, bæði í tengslum við persónusköpun og þá atburði sem persónur voru viðriðnar. Efnið má því kalla almælta sögu og það hefði verið létt verk fyrir sagnaritara að fella það saman í listræna heild. Sú saga var þó aldrei skrifuð en dæmið af Síðu-Halli gæti engu að síður verið upplýsandi um hvernig sköpunarsögu annarra Íslendinga sagna var háttað.

Niðurhal

Útgefið

2021-06-22

Tölublað

Kafli

Peer-Reviewed