Old Norse religion in the sagas of Icelanders

  • † Jón Hnefill Aðalsteinsson
Keywords: Old Norse Religion, Norse Mythology, Icelandic Sagas, Theology

Abstract

Íslendingasögur eru torræðar og vandmeðfarnar heimildir um norræna trú. Því ber nauðsyn til, áður en litið er á slík dæmi í sögunum, að hyggja að rannsóknarsögu síðustu áratuga og líta á niðurstöður fremstu vísindamanna um hvernig íslendingasögur séu til orðnar. Fyrir þá rannsókn sem hér er gerð skiptir mestu máli hvort gera megi ráð fyrir gömlum sagnleifum í sögunum sem hugsanlega væru frá dögum norrænnar trúar. í formála Egils sögu árið 1933, sem var stefnumótandi fyrir viðhorf útgefenda íslenzkra fornrita, segir Sigurður Nordal, að meginefni margra íslendingasagna sé sótt í munnlegar frásögur, en sögurnar séu verk höfunda sem hafi farið frjálslega með efni sitt. í verkum Snorra Sturlusonar nái sagnaritunin fyllstu samræmi vísinda og listar. Sama grundvallarviðhorf til íslendingasagna setti Sigurður Nordal einnig fram í Nordisk kultur tuttugu árum síðar. Þar segir hann, að meginhluti íslendingasagna byggi að meira eða minna leyti á arfsögnum. Meira vafamál telur hann um arfsagnirnar hvað sumar yngri sögurnar varðar, en í þeim hópi eru Hrafnkels saga og Njáls saga. í ritgerð um Hrafnkels sögu hafði Sigurður Nordal einnig varað við því að heimfæra þær niðurstöður sem hann komst þar að á önnur verk. Sigurður Nordal var frumkvöðull og brautryðjandi hins svonefnda 'íslenska skóla', sem kom fram sem arftaki 'bókfestu-' og 'sagnfestukenninga', og var mikils ráðandi um miðja öldina og gætir allt fram á þennan dag. Af talsmönnum þess skóla utan íslands má sérstaklega nefna Dag Strömbáck og Gabriel Turville-Petre. í nýlegu yfirlitsriti um íslendingasögur heldur Jónas Kristjánsson fram svipuðum viðhorfum og hér hafa verið rakin. Hann gerir grein fyrir kenningum um íslendingasögur er fram hafa komið á síðustu áratugum og telur höfunda þeirra alla kunna að hafa nokkuð til síns máls. En hann bætir við, að einstrengingsleg fastheldni við einstakar kenningar leiði menn á villigötur, því að höfundar íslendingasagna séu bundnir í annan skó af ætlunarverki sagnanna og heimildum sínum, sögnum, bundnu máli og eldri ritum.

Torvelt er að færa rök að hugsanlegum aldri munnmælasagna í íslendingasögum. Þau tímamörk sem helst verður tekið mið af eru kristnitakan. Þá vaknar sú spurning, hvort unnt sé að leiða líkur að því, að enn megi finna í sögunum sagnamunstur er beri þess einkenni að hafa orðið til fyrir kristnitöku. í Víga-Glúms sögu eru nokkrar frásagnir um samskipti Víga-Glúms og Freys. Víga-Glúmur vanhelgar það sem guðinum tilheyrir og guðinum er færð fórn til að koma Víga-Glúmi frá Þverá. Niðurstaðan verður sú, að Víga-Glúmur verður að láta jörðina af hendi. Hér er til staðar innra samhengi orsaka og afleiðinga sem gæti borið vitni viðhorfum tíundu aldar. í Víga-Glúms sögu eru þessi minni þó óvirk og þar eru ýmis atriði úr hjátrú elleftu, tólftu og þrettándu aldar látin fleyta fram atburðarás. Sú staðreynd, að heillegt sagnamunstur úr hugarheimi norrænnar trúar er þrátt fyrir allt enn í sögunni, er veigamikil röksemd fyrir því, að umræddar sagnir hafi mótast meðan norræn trú var enn ríkjandi á íslandi. í Gísla sögu Súrssonar segir frá Freysdýrkun Þorgríms, sem Gísli Súrsson vó í hjónarekkjunni við lok haustblóts. Frásögn sögunnar dregur fram, að Þorgrímur hafi engum verið lfkari en Frey á banastundinni. Haugur Þorgríms hélst þíður og var þakkað Frey. Gísli leit til haugsins og kvað vísu þar sem hann kom upp um sig. Hér er auðlesið trúarsögulegt samhengi, en þó gegna þessir atburðir ekki samfelldu hlutverki í sögunni, þar sem atburðarás er borin uppi af ýmsum hjátrúarfyrirbærum. Hér gæti einnig verið um sagnleif frá tíundu öld að ræða, er tekið hefði á sig mynd meðan Freyr var enn lifandi og virkur guð.

Published
2021-07-21
Section
Peer-Reviewed