Í greininni er fjallað um frásagnarfræðileg einkenni Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal. Segja má að fræðimenn hafi skoðað og metið sagnagerð Eiríks frá þremur sjónarhornum. Ýmsir sem komust í tæri við Ólafssögu á nítjándu öld og jafnvel síðar virðast hafa litið á hana sem misheppnað safn þjóðsagna. Frá því um miðja tuttugustu öld hafa skrif Eiríks hins vegar almennt verið talin marka upphaf skáldsagnagerðar hér á landi. Samkvæmt þriðja sjónarhorninu tilheyrir Ólafssaga hins vegar sígildri sagnahefð sem unnt er að staðsetja mitt á milli þjóðsögunnar og skáldsögunnar. Án þess að fyrri sjónarhornunum tveimur sé alfarið hafnað er lögð áhersla á að sagan eigi ýmislegt sameiginlegt með frásagnarbókmenntum fyrri alda og í því sambandi gerður samanburður á henni og hinni forngrísku Ódysseifskviðu, arabíska sagnasafninu Þúsund og einni nótt og franska miðaldatextanum Leitin að hinum helga gral. Í öllum tilvikum er stuðst við greiningu búlgarsk-franska fræðimannsins Tzvetans Todorov í verkinu The Poetics of Prose. Þegar tekið er tillit til efniviðar, uppbyggingar og jafnvel persónusköpunar Ólafssögu má líta á hana sem skilgetið afkvæmi aldalangrar bókmenntahefðar lagskiptra frásagna þar sem ekki er aðeins unnið úr munnlegri sagnahefð heldur er sú hefð beinlínis sett á svið.