Styttingar og bönd í norrænum handritum — megindleg rannsókn

Höfundar

  • Tarrin Wills Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/gripla.35.3

Útdráttur

Fyrri rannsóknir á fjölda og dreifingu á notkun styttinga og banda í handritum hafa bent til þess að í íslenskum handritum séu skammstafanir meira notaðar en í öðrum löndum og notkun þeirra fari vaxandi á miðöldum. Í þessari rannsókn er sjónum beint að fyrri athugunum og notaðar megindlegar aðferðir þar sem litið er á útgáfur og uppskriftir handrita úr Menota-textasafninu og dróttkvæðaverkefninu (Skaldic project). Sérstaklega er horft til munar á bundnu og óbundnu máli, sem og nýrra rannsókna á styttingum í handritum rituðum bæði á latínu og á öðrum málum. Athuganirnar leiða í ljós að umfang styttinga og banda í íslenskum og norskum handritum samanborið við aðrar hefðir gæti hafa verið ofmetið en að með tímanum hafi íslensk handrit skorið sig úr frá því sem tíðkaðist annars staðar. Verulegur munur sést einnig á styttingum bundins máls og óbundins í handritum sem hafa hvort tveggja þar sem lausamálstexti er yfirleitt styttur um það bil þrisvar sinnum meira en texti í bundnu máli. Í þessari grein er einnig gerð grein fyrir þróun á nýrri mæliaðferð fyrir notkun á skammstöfunum sem byggist á gögnum úr mörkuðum textaútgáfum og leitt hefur í ljós hversu mikið pláss sparast með notkun þeirra (styttingarhagkvæmni). Þessi mæliaðferð er sambærileg við helstu núverandi mælingar sem tíðkast í fræðunum (hlutfall skammstafaðra orða) en þó er hægt að beita henni á ómarkaðan stafrænan texta þar sem eingöngu er gefið til kynna að leyst hafi verið upp úr böndum og styttingum. Þessari mæliaðferð er síðan beitt á gagnagrunn dróttkvæðaverkefnisins. Niðurstöðurnar gefa skýrar vísbendingar um notkun skammstafana yfir lengri tíma og sýna að henni megi skipta í þrjú ólík tímabil: hún fer vaxandi á miðöldum, heldur áfram að vera umfangsmikil fram yfir siðaskiptin og fer síðan smám saman minnkandi fram á byrjun nítjándu aldar.

Niðurhal

Útgefið

2024-12-16

Tölublað

Kafli

Articles