„Inn heilagi Óláfr konungr ok inn háleiti Hallvarðr, frændi hans”: Ólafur helgi og ættfræði dýrlinga í Noregi, á Íslandi og Orkneyjum

Höfundar

  • Peter Sigurdson Lunga Department of Teacher Education Norwegian University of Science and Technology Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/gripla.35.7

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um hlutverk Ólafs helga Haraldssonar (d. 1030) í ættfræði norrænna dýrlinga. Við rannsóknir á norskri konungstign hefur komið fram hvernig Ólafur gegndi lykilhlutverki við að tryggja lögmæti krafna um völd allt frá elleftu öld til þrettándu aldar. En Ólafur var einnig nýttur til að réttlæta staðfestingu á heilagleika dýrlinga síðar meir. Þessi rannsókn snýst um tvo dýrlinga af því tagi: Hallvarð helga Vébjörnsson (d. um 1043) frá austurhluta Noregs og Magnús helga Orkneyjajarl (d. 1116/17). Gerð er grein fyrir hvernig ættfræði þessara síðari dýrlinga tengdist og nýtti sér arfleifð Ólafs helga en það undirstrikar hvað Ólafur var lengi mikilvægur í ættfræðilegri umfjöllun þeirra dýrlinga sem á eftir komu. Farið er vandlega yfir ættfræðilegar upplýsingar um Hallvarð í textabrotum sem varðveist hafa, þar með talin Acta Sancti Halvardi á latínu og fornsagan Hallvarðs saga sem nú er nær algjörlega glötuð. Heimildir greina ávallt frá ættar- tengslum Hallvarðs og Ólafs í kvenlegg en eru ekki sammála um hvernig þeim er háttað. Fullyrða má að hugmyndin um þessi tengsl hafi verið í munnlegri geymd áður en farið var að skrá þau niður. Hins vegar er full ástæða til að draga í efa þennan ætlaða skyldleika. Hallvarðar og Ólafs er beggja getið í bók Adams frá Brimum, Gesta Hammaburgensis Ecclesie Pontificum (um 1075/76) en ekki kemur þar fram neitt um skyldleika þeirra. Því er líklegt að ekki hafi verið farið að ætla þá skylda fyrr en í upphafi tólftu aldar þegar Sigurður Jórsalafari (konungur frá 1103– 1130) kom að byggingu kirkju Hallvarðs helga fyrir Óslóarbiskupana. Ættartengsl Ólafs og Hallvarðs gætu hafa rennt stoðum undir þetta samstarf og styrkt völd og orðstír Sigurðar konungs í samkeppninni við hina konungana tvo, Eystein og Ólaf. Seinni hluti greinarinnar fjallar um Magnús helga Erlendsson. Ættarsaga hans í Orkneyinga sögu, Magnúss sögu skemmri og Magnúss sögu lengri draga fram ný sjónarmið varðandi dýrkunina á Magnúsi næstu aldir eftir andlát hans. Í Orkneyinga sögu er lögð áhersla á Íslendingana í móðurætt Magnúsar og greint frá því að frændi hans og keppinautur Hákon sé kominn af Magnúsi góða (konungur frá 1035–1047), en þó þannig að hætt er að rekja ættina einni kynslóð áður en að Ólafi helga kemur. Svo er litið á að Magnúss saga skemmri, frá seinni hluta þrettándu aldar, sé um fátt merkileg nema hvað frásögnina af Orkneyinga sögu varðar en þar er ættfræðiheimildum bæði þjappað saman og þær útvíkkaðar. Textinn eykur orðstír Magnúsar helga með því að tengja hann nýrri grein norsku konungsfjölskyldunnar, jafnvel þótt Ólafi helga sé alfarið sleppt í frásögninni. Þannig eru dregin fram afrek og kraftaverk Magnúsar sjálfs sem gæti bent til þess að samkeppni hafi ríkt á milli Ólafs og Magnúsar á Íslandi síðla á þrettándu öld. Ættfræðiupplýsingarnar í Magnúss sögu lengri eru auk þess taldar vera til þess að undirstrika stöðu hans sem norræns dýrlings í víðara samhengi. Þar er Ólafi helga á ný bætt við ættartöflu hans og þannig er hann ættfræðilega tengdur enn fleiri dýr- lingum í norrænu samhengi. Í stað metings og staðbundinna deiluefna birtist sam- eiginleg sýn á samfélag dýrlinga frá Noregi, Íslandi og Orkneyjum, sem tengjast hver öðrum ættarböndum.

Niðurhal

Útgefið

2024-12-16

Tölublað

Kafli

Articles