Tvennar rímur af Fertram og Plató frá 17. öld
Rímur Jóns Eggertssonar og brot af glataðri rímu Jóns Guðmundssonar lærða?
DOI:
https://doi.org/10.33112/Lykilorð:
rímur, 17th century literature, fragment, stylometry, bókmenntir 17. aldar, handritabrot, stílmælingarÚtdráttur
Á vordögum árið 2024 leitaði Eyþór Guðmundsson bókasafnari til mín með handritsbrot sem hann hafði fundið innan í bókbandi sálmabókar sem prentuð var á Hólum. Hann vildi vita hvort ég gæti aðstoðað hann við að bera kennsl á texta brotsins, sem og áætla aldur þess. Brotið reyndist vera úr handriti frá 18. öld og texti þess bundið mál sem kom svo í ljós að mundi vera Fertrams rímur og Plató. Hins vegar var málum blandið að ákvarða hvaða Fertrams rímur og Plató væru á brotinu þar sem fleiri en einn rímnaflokkur hefur verið ortur um söguefnið.
Einn rímnaflokk, þ.e. Fertramsrímur og Plató ortan af Sigurði Breiðfjörð um árið 1830 var hægt að útiloka vegna aldurs handritsbrotsins. Eftir stóð þá sá möguleiki að brotið bæri Fertrams rímur og Plató sem ortar voru á 17. öld. En tvö rímnaskáld hafa verið orðuð við þær rímur í sumum heimildum meðan aðrar heimildir gera ráð fyrir að skáldin tvö hafi ort hvort sinn rímnaflokkinn af sama sagnaefni. Skáldin eru Jón Eggertsson og Jón Guðmundsson lærði. Samanburður brotsins við varðveitta gerð Fertrams rímna og Plató í handritinu Lbs 695 4to, sem eignaðar hafa verið Jóni Eggertssyni, sýnir þó glöggt að handritsbrotið geymir ekki brot af þeim rímnaflokki. Það bendir sterklega til þess að handritsbrotið gæti verið brot af Fertrams rímum og Plató eftir Jón Guðmundsson lærða og væri þá eina brot þeirra sem varðveist hefur. Orðmengjafræðileg stílfræðirannsókn virðist benda til þess að þetta nýfundna rímnabrot sé vissulega skylt öðrum rímnaflokki, Ármanns rímum, sem vitað er að Jón lærði orti.