Fóstbræðra saga: A Missing Link?
DOI:
https://doi.org/10.33112/gripla.31.3Útdráttur
í þessari grein er því haldið fram að Fóstbræðra saga sé hlekkur sem tengir saman konungasögur og íslendingasögur og jafnframt að hún sé fyrsta Íslendingasagan sem beitir samtvinnun lausamáls og kveðskapar (prosimetrum). Sven B.F. Jansson setti fram athuganir um tengsl styttri og lengri gerðar sögunnar og taldi hann að hinar svokölluðu „klausur“ hefðu verið til staðar í erkiritinu. Hér er málið tekið til endurskoðunar. Þótt ákveðnir gallar séu á rökfærslu Janssons er sú niðurstaða hans að klausurnar séu upphaflegar líklega réttar – en á þó ekki um þær síðustu fimm. Um aldur sögunnar hélt Theodore Andersson því fram að Fóstbræðra saga væri eldri en Heimskringla en Jónas Kristjánsson var á öndverðum meiði. Málflutningur Anderssons er skynsamlegur og fallist á hann hér en í raun er þó ekki miklu til að dreifa við aldurssetningu íslendingasagna og væri dýrmætt að finna fleiri rök í málinu. Ef heppnin væri með mætti reyna að ráða eitthvað af kveðskapnum í sögunni og hér eru tveir eiginleikar þessa kveðskapar skoðaðir. Fóstbræðra saga er einstök meðal Íslendingasagna í því að þegar hún vitnar í kveðskap er það að miklu leyti til að staðfesta atburðarásina, eins og gert er í konungasögum. Annað sérkenni á sögunni er að nota kenningar úr skáldamáli í því flúraða máli sem notað er í klausunum. Þegar litið er á það hvernig kveðskapur er notaður í konungasögum má gera því skóna að þessir eiginleikar bendi til hás aldurs og vísi aftur til tíma þegar sagnagerð var á tilraunastigi.