Aðalsteinn Hákonarson
Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
Höfundur
Útdráttur
Athugasemdir Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups frá árinu 1651 um ritun og framburð orða eins og fé, mér og sér hafa verið túlkaðar sem heimild um mállýskumun í framburði orða er í forníslensku höfðu langa einhljóðið é [eː]. Sýnt er að þessi túlkun er ósennileg. Ummæli biskups fjalla um orð er í síðari alda máli
höfðu hljóðasambandið je [jɛ(ː)] sem almennt var ritað og prentað „ie“ eða „je“. Að rita „i“ (eða „j“) á undan „e“ í slíkum orðum var að hans dómi rangt, enda væri sá ritháttur — og einnig það að bera fram j á undan e í þessum orðum — nýlegur ósiður. Þetta taldi Brynjólfur að mætti ráða af því að forn handrit höfðu ekki „ie“ í umræddum orðum, þau væru þar ávallt rituð án „i“. Hann áleit að nýi ósiðurinn hefði átt upptök sín á Norðurlandi og segir að þar gangi menn svo langt að skjóta j framan við e í nafni bókstafsins „e,“ þ.e. kalli „e“ je. Sýnt er að bókstafsnafnið je [jɛː] í máli síðari alda endurspeglar hljóðrétta þróun frá forníslensku nafni „e“ sem var é [eː]. Ummæli Brynjólfs eru heimild um að á 17. öld eða fyrr hefur sums staðar verið farið að kalla „e“ e [ɛː] og einnig um að nafnið je hefur lifað lengst fyrir norðan. Sjálfstæðar heimildir eru um að bókstafsnafnið
je tíðkaðist á Norðurlandi fram á síðari hluta 17. aldar.