Natalie M. Van Deusen
University of Alberta
Höfundur
Útdráttur
Sprundahrós er kvæði frá 18. öld sem að öllum líkindum er ort af séra Jóni Jónssyni (1739–85) á Kvíabekk. Kvæðið hefur aldrei verið prentað og hefur ekki hlotið mikla athygli fræðimanna. Í 22 erindum er dyggðum 25 nafngreindra kvenna hrósað. Þetta eru bæði konur sem þekktar eru úr Biblíunni, drottningar í ýmsum löndum
og konur sem koma fyrir í fornum norrænum sögum. Kvæðið hefur varðveist í þremur handritum; það elsta er
ÍB 815 8vo frá því um 1800, en einnig eru tvær afskriftir, báðar frá 1841, eftir Gunnlaug Jónsson (1766–1866) á Skuggabjörgum í JS 255 4to og JS 589 4to. Útgáfunni fylgir inngangur og greining á kvæðinu þar sem litið er á efni þess, höfund og stíl. Hugað er að tengslum þess við kappakvæði, sérstaklega kvæði Guðmundar Bergþórssonar (um 1657–1705) frá því um 1680, en hægt er að líta á Sprundahrós sem svar við því. Texti kvæðisins er prentaður samhliða stafrétt og með nútímastafsetningu, byggður á ÍB 815 8vo með lesbrigðum úr
JS 255 4to og JS 589 4to.