Aldrnari

  • Þórhallur Eyþórsson Háskóli Íslands
Völuspá, söguleg málvísindi, tökuorð, forníslenska, fornenska

Útdráttur

Orðið aldrnari kemur fyrir einu sinni í forníslensku, í Völuspá 54, með lesbrigðum í Konungsbók annars vegar (við aldrnara) og Hauksbók og öðrum handritumhins vegar (ok aldrnari). Enn fremur kemur orðið fyrir meðal eldsheita í þulum. Hefðbundin skýring er að það merki ‘sá sem nærir lífið’ og eigi við um eld. Aðrir hafa stungið upp á að orðið tákni ask Yggdrasils. Hvorug skýringin er fullnægjandi. Fræðimenn hafa veitt því athygli að aldrnari samsvarar orðmynd í fornensku sem varðveitt er í handritum frá 10. öld og talin er merkja ‘björgun lífs, athvarf’ eða jafnvel ‘sá sem bjargar lífi’. Fornenska nafnorðið ealdornere, aldornere kemur aðeins fyrir í aukafalli (þolfalli/þágufalli) en væri *ealdorneru, *aldorneru í nefnifalli. Hér eru forníslensku og fornensku orðin rannsökuð nánar og ályktað að aldrnari í Völuspá sé tökuorð úr fornensku og beyging þess aðlöguð að forníslensku. Niðurstaðan um merkingu orðsins aldrnari er samrýmanleg hugmyndum Péturs Péturssonar um túlkun Völuspár í ljósi kristinna dómsdagsmynda.

Útgáfudagur
2021-01-05
Tegund
Ritrýnt efni