Jón Árnason og Gríshildur góða

Um breytingar ritstjórans á frásögn konu af annarri konu

  • Reynir Þór Eggertsson

Útdráttur

Árið 1864 kom íslenska þjóðsagan Sagan af Gríshildi góðu í fyrsta sinn út á prenti í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og Guðbrands Vigfússonar. Þjóðsagan á rætur í Tídægru (Decamerone) Boccaccios frá u.þ.b. 1350 sem Petrarca endursamdi á latínu 1373 þannig að hún náði mikilli útbreiðslu um Evrópu næstu aldirnar. Til Íslands berst sagan í kringum 1600 og nær talsverðum vinsældum, enda eru til a.m.k. átján gerðir sögunnar, bæði í bundnu og lausu máli, varðveittar í 52 handritum, auk þess sem nokkrar hafa verið gefnar út á prenti.

Þegar þjóðsagnasafnið var endurútgefið á sjötta áratug síðustu aldar birtust í því tvær Gríshildarþjóðsögur, annars vegar sú frá 1864 og hins vegar styttri, áður óútgefin gerð í 5. bindi árið 1958. Við nánari athugun kemur í ljós að báðar byggja á sömu skrásetningu sögunnar, frásögn Ragnhildar Guðmundsdóttur á bl. 176r–78r í þjóðsagnahandriti Jóns, Lbs 533 4to. Útgáfan frá 1864 er í raun endursamning Jóns sjálfs á frásögninni, sem einnig er varðveitt í Lbs 533 4to bl. 220r–23r), en útgáfan frá 1958 er aftur á móti sagan eins og Ragnhildur hafði skrifað hana. Í greininni leitast höfundur við að greina og útskýra þær breytingar sem Jón gerir á sögunni, auk þess að kanna áhrif þjóðsögunnar á síðari bókmenntaverk.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að breytingum Jóns megi skipta í þrjá aðalflokka. Í fyrsta lagi bætir hann við þar sem frásögn Ragnhildar er heldur stuttaraleg. Í öðru lagi breytir hann til baka að Boccaccio-/Petrarca-hefðinni sumu því sem aflagast hefur í munnmælum, t.a.m. barnafjölda titilpersónunnar úr þremur börnum í tvö, og fjarlægir hugsanlega tengsl við aðrar sagnahefðir þegar hann gerir kónginn Artus nafnlausan. Í þriðja lagi virðist hann undir svipuðum karlrembuáhrifum og evrópskir kollegar hans þegar hann eykur áhrif og völd kóngsins og annarra karlpersóna á kostnað kvenpersóna. Með breytingum sínum bjó Jón í raun til nýja gerð Gríshildarsögunnar og í rannsóknum á textatengslum og þróun verður því að líta á hana sem sjálfstæðan texta, óháðan frásögn Ragnhildar.

Útgáfudagur
2022-12-01
Tegund
Ritrýnt efni