Hómilíutáknmál í Heimskringlu

  • Árni Einarsson

Útdráttur

Athugað er hvort sú tilgáta standist að heimkomusagan í Ólafs sögu helga í Heimskringlu (k. 32–34) sé allegórísk og byggð á táknmáli í ætt við það sem algengt er í hómilíum. Sagan segir frá því er Ólafur helgi kemur heim til Ástu móður sinnar og Sigurðar sýr fósturföður síns eftir langa fjarveru. Mun fleiri möguleg tákn eru í heimkomusögunni en í öðrum köflum Ólafs sögu. Í greininni eru þau dregin fram og athugað hvort túlkun þeirra samkvæmt hómilíuhefð skapi heildstæða mynd sem falli að meginkenningum Kirkjunnar. Tákn í sögunni tengja Ólaf við Krist og eilífan fagnað hinna útvöldu á himnum, Sigurð við himininn, þrenninguna og guðs orð en líka formyndir krossins og kirkjunnar. Ásta tengist við jörð, guðspjöllin, kristni og kirkju. Heildarfjöldi fólks í sögunni (153) tengist öllum persónunum þremur og er þekkt biblíuleg tala, túlkuð m.a. af Gregoríusi mikla sem hinir útvöldu á himnum. Búningur og sviðsetning Sigurðar tengir hann við þekkt týpólógísk atriði er varða Móse og Júda og þar með gamla sáttmála en einnig við Ferðina til Emmaus og þar með pílagríma og Krist upprisinn. Sennilegt má telja að heimkomusagan sé afurð trúarlegs starfs í klaustrum. Hún rímar við Rauðúlfs þátt sem einnig er ítarleg og þaulhugsuð allegóría um Ólaf. Báðar sögurnar hafa líklega það megintakmark að rækta helgi hans.

Útgáfudagur
2022-12-16
Tegund
Ritrýnt efni