Magic, Margrétar Saga and Icelandic Manuscript Culture

  • Katelin Marit Parsons

Útdráttur

Dýrlingurinn Margrét frá Antíokkíu hefur lengi verið nátengd við fæðingu. Margrét á að hafa verið tekin af lífi snemma á fjórðu öld e.Kr. vegna trúar sinnar eftir að hafa hafnað rómverskum greifa sem vildi eignast hana og fá hana jafnframt til þess að láta af trúnni. Samkvæmt sögu Margrétar bað hún, rétt áður en hún var tekin af lífi, fyrir heilsu fæðandi kvenna og barna þeirra og sér í lagi ef eintak sögunnar væri til á heimilinu. Píslarsaga Margrétar var talin búa yfir verndarmætti í barnsnauð og allnokkur handrit Margrétar sögu hafa varðveist frá miðöldum í litlu broti sem bendir til mögulegrar notkunar á barnssæng. Margrétar saga finnst í fjölda yngri handrita sem eru skrifuð eftir siðaskipti en aðeins tvö handrit eru frá sautjándu öld. Þeirri skýringu hefur verið varpað fram að vegna tengsla Margrétar sögu við fæðingarhjálp hafi sagan verið tengd við galdur í hugum fólks og að fæstir skrifarar hafi þorað að skrifa hana á liðlega 150 ára tímabili (um 1550–1719). Greinin rekur eigendasögu AM 428 a 12mo á 17. öld og færir rök fyrir að Margrétar saga hafi ekki farið huldu höfði á Íslandi á þessum tíma. Handritið geymir Margrétar sögu frá fjórtándu öld en einnig tvær skreyttar titilsíður og ýmsar kaþólskar og lútherskar bænir sem Jón Þórðarson á Bakka í Melasveit (1648–1719) lét skrifa á bókfell á árunum 1689–1690. Af titilsíðunum má sjá að eigandi handritsins var kona Jóns, Helga Sigurðardóttir (d. fyrir 11. júní 1691). Litríku titilsíðurnar benda til þess að ekki hafi þótt óviðeigandi fyrir íslenska konu á seinni hluta sautjándu aldar að eiga glæsilegt eintak af Margrétar sögu. Líkur eru leiddar að því að stækkaða og endurinnbundna handritið hafi verið gjöf Jóns til Helgu og jafnvel brúðkaupsgjöf. Framsetning Jóns á Margrétar sögu leggur áherslu á tengingu handritsins við kaþólska fortíð en meðal fyrri eigenda handritsins voru Jón biskup Arason (1484–1550) og Helga Aradóttir (c. 1538–1614). Því miður lifði Helga Sigurðardóttir ekki lengi eftir að hún fékk handritið en annar óþekktur notandi handritsins þakkaði afar innilega fyrir bókarlánið 3. febrúar 1716. Pappír ruddi sér til rúms í íslenskri handritamenningu á fyrstu áratugum sautjándu aldar. Væri Margrétar saga skrifuð á pappír í svipuðu broti og AM 428 a 12mo væri endingartími kversins væntanlega ekki langur. Þetta kann að skýra hvers vegna Margrétar saga finnst ekki oftar í handritum frá 17. öld. Það er ósennilegt að sagan hafi verið sérstaklega tengd við iðkun galdurs á brennuöldinni. Aftur á móti voru gömlu skinnhandritin líklegri til þess að lifa af notkun og komast síðan í hendur safnara.

Útgáfudagur
2022-12-01
Tegund
Ritrýnt efni