English
English
DOI:
https://doi.org/10.33112/Lykilorð:
English, IcelandicÚtdráttur
Safnritið sem þekkt er undir heitinu Vatnshyrna hefur lengi haft mikilvæga en
flókna stöðu í rannsóknum á forníslenskum sögum. Þessi grein fer í saumana á
rannsóknarsögu og endurgerð Vatnshyrnu og Pseudo-Vatnshyrnu sem taldar eru með stærstu safnritum Íslendingasagna frá miðöldum. Frá því á 19. öld hafa fræðimenn talið víst að Vatnshyrna hafi verið handrit sem Arngrímur Jónsson vísaði til í Crymogæu árið 1609 og ætti við handritið Membrana Reseniana No. 5, einnig þekkt sem Vatnshornsbók. Guðbrandur Vigfússon gekk út frá þessari forsendu árið 1860 og hún hefur mótað fræðin síðan enda þótt hún byggist á tilgátum og hringskýringum. Stefán Karlsson sýndi að vísu fram á að Guðbrandur hefði haft rangt fyrir sér þegar hann taldi AM 564a 4to vera hluta af Membr. Res. No. 5 en Stefán efaðist ekki um tengingu Guðbrands við Crymogæu Arngríms. Það hefur stuðlað að áframhaldandi ruglingi í síðari rannsóknum.
Með því að skoða hvernig Arngrímur Jónsson vann úr heimildum sínum, bæði
að formi og efni, færi ég rök fyrir því að tilvísun hans til Watzhyrnu eigi frekar við einn texta – hugsanlega vegna misskilnings um handritsbrot – en til handrits sem hafi geymt að minnsta kosti þrjár aðskildar sögur. Þessi túlkun ögrar hinni lang
varandi leit að týndu safnriti og kallar á breytingu í nálgun. Ég mæli með efnis- og frásagnarfræðilegu sjónarhorni sem tekur alvarlega bæði textabrigði í varðveittum handritum og eðli þeirra heimilda sem Arngrímur notaði. Ég legg til að nafnið Vatnshyrna verði lagt af í þágu heita sem byggjast á traustum efnislegum grunni. Til að forðast rugling legg ég til að brunna handritið sem Árni Magnússon kallaði Vatnshornsbók verði tengt við Membrana Reseniana No. 5 þar sem þessi tenging er eini öruggi punkturinn sem við höfum varðandi efni handritsins. Brot sem áður voru flokkuð sem hluti af Pseudo-Vatnshyrnu – þ.e. AM 564a 4to, AM 445b 4to og AM 445c I 4to – ætti þess í stað að nefna sameiginlega Melabók. Þetta heiti, sem þegar er tengt einu brotinu, endurspeglar betur frásagnarskipan handritsins og forðast þann rugling sem fylgt hefur nafninu Vatnshyrna.
Í greininni er jafnframt lagt til að Melabók verði ekki aðeins lesin og túlkuð sem
ósamstætt safn sögutexta heldur sem úthugsað safnrit með skýru svæðisbundnu og ættfræðilegu samhengi. Ættartölurnar í upphafi enduróma og eru útfærðar í
sögunum. Það bendir til þess að val og ritstýring textanna hafi byggst á heildstæðri sýn á samsetningu verksins. Innihald og samsetning Vatnshyrnu verður aldrei þekkt en með því að sameina þessi brot undir heitinu Melabók fæst áþreifanlegt og túlkanlegt safn texta sem nú er hægt að skoða í heild sinni.
Með því að ögra langlífum forsendum sem byggðust á tilgátum og hring
sönnunum og beita þess í stað efnis- og frásagnarfræðilegri túlkun á hin varðveittu handritsbrot vona ég að þessi rannsókn ryðji braut fyrir heimildamiðaðan og dýpri skilning á íslenskri handritamenningu miðalda og þeim grundvallarsjónarmiðum sem mótuðu samsetningu handrita fornsagnanna.