The Farmer, Scribe and Lay historian Gunnlaugur Jónsson from Skuggabjörg and his Scribal Network
Abstract
Greinin kannar skrifaratengsl og umhverfi Gunnlaugs Jónssonar á Skuggabjörgum (1786–1866). Hann var bóndi, skrifari og alþýðufræðimaður sem lítið er vitað um í dag utan þess að hann er höfundur Aldarfarsbókar, annála úr sögu Íslands frá 1801 til 1866. Eftir hann liggur fjöldi handrita sem hefur að geyma skáldskap í lausu og bundnu máli, svo og texta um söguleg efni. Þessi handrit og þá einkum dagbók hans (Lbs 1588 8vo), sem hann hélt frá 1801 til 1854, sýnir að hann var hluti af stóru neti skrifara og fræðimanna, lærðra og leikra, á norðanverðu Íslandi. Hann var virkur þátttakandi í þessu samstarfi þar sem hann deildi skrifum sínum með öðrum. Þeir sem mest áhrif virðast hafa haft á starfsemi hans eru sr. Gísli Jónsson á Stærra-Árskógi og aðrir lærðir menn. Sjálfur hefur Gunnlaugur verið í tengslum við – meðal annarra – Steingrím Jónsson biskup og þar með getað haft áhrif á hans fræðistörf, því vitað er að hann lánaði Steingrími handrit sem hafði að geyma hagnýtar upplýsingar frá nokkrum sóknum á Norðurlandi (Lbs 1744 8vo). Alþýðufræðimaðurinn Daði Níelsson er annað dæmi um fræðimann sem var í sambandi við Gunnlaug og fékk frá honum upplýsingar. Jafnfram þessu starfaði Gunnlaugur sem skrifari í sinni heimabyggð og vann að skriftum fyrir sýslumann. Þegar á heildina er litið má segja að Gunnlaugur hafi annars vegar verið undir áhrifum frá upplýsingunni, þar sem hann hefur bjartsýna söguskoðun og sýnir áhuga á að uppfræða samtímamenn sína með sagnfræðiathugunum, og hins vegar frá hinum lærðum straumum sem bárust frá Hólum og Skagafirði. Þessi grein veitir innsýn í líf alþýðufólks á 19. öld og breikkar og lýsir mynd okkar af íslenskri menningu.