The rainbow allegory in the old physiologus manuscript

Authors

  • Carla Cucina DIPRI – Dipartimento di Ricerca linguistica, letteraria e filologica Università di Macerata Author

Abstract

Regnbogatáknsagan í forníslenska Physiologus-handritinu Tilgangurinn með þessari grein er að koma á framfæri nýrri hálf-stafréttri útgáfu, ásamt skýringum og greiningu, á handritsbroti sem varðveitt er í ‘Physiologushandritinu’ AM 673 a II 4to, fol. 9 og inniheldur stutta allegoríska stólræðu um regnbogann. Þessi hómilíutexti, sem fræðimenn hafa nánast engan gaum gefið, inniheldur þriggja lita lýsingu og notkun líkingamáls við að útskýra regnbogann og byggir á sögunni um Nóaflóðið (einkum 1. Mósebók 9, 13–16). Til eru tvær mismunandi endurgerðir textans og er aðra að finna í Hauksbók en hina í Rímbeglu. Báðar eru hafðar til hliðsjónar hér en einnig er litið til kristinna vísana í regnbogann í öðrum forníslenskum textum. Forníslenska regnbogatáknsagan er skoðuð í ljósi kristinna ritskýringarbókmennta á latínu, bæði hvað varðar myndmál lita almennt og tilteknar táknrænar útskýringar á regnboganum, í því skyni að komast nær hugsanlegum uppruna textans. Einnig eru kannaðar ýmsar hliðstæður í fornþýskum biblíukveðskap og í fornírskum hómilíum, sem og í öðrum hómilíutextum frá meginlandinu sem eru ritaðir á latínu en eiga sér írskar rætur. Færðar eru sönnur á að forníslensku útskýringarnar á litum regnbogans séu sprottnar úr ríkri hefð, en jafnframt hafi þær sín eigin upprunalegu sérkenni. Sýnt er fram á sértæk og skýr tengsl við verk lærðra munka á miðöldum, sér í lagi við biblíuskýringar Bedas, bæði hvað varðar myndmál lita og allegoríska aðferð (bæði sögulega og sem snýr að notkun líkingamáls), og nokkur athyglisverð atriði eru nefnd sem varða kennisetninguna um yfirbót. Einnig er dregið fram hvernig sú flokkun á fyrirgefningu synda í þrjá hluta sem kemur fram hjá höfundi íslenska textans sýni hugsanleg áhrif frá hugmyndum írskra munka um þrefalt píslarvætti sem einnig tengist skiptingu í þrjá liti. Þegar á heildina er litið er ekki að finna nákvæma hliðstæðu í umfjöllun um liti regnbogans í öðrum verkum við þá sem er að finna í forníslenska textanum. Hvað varðar bæði efnistök og formlega skipan er þetta stólræðubrot óvenju heildstætt. Jafnframt leiðir það saman á nokkuð frumlegan hátt tvær ólíkar hefðir, þ. e. hefðbundnar biblíuskýringar og atriði sem tengjast kennisetningunni um yfirbót, en hvort tveggja hafði vissulega mikla þýðingu í daglegu lífi kristinna manna og fyrir kirkjulega ræðugerð á miðöldum. Í framhjáhlaupi er það einnig lagt til að hinn þekkti þriggja lita regnbogi í Gylfaginningu Snorra eigi rætur að rekja til þessarar sömu lærdómshefðar.

Downloads

Published

2021-06-21

Issue

Section

Peer-Reviewed