The Buchanan psalter and its Icelandic transmission*
Abstract
Árið 1585 kom út í Rostock kver með Davíðssálmum sem skoska skáldið George Buchanan (1505-1582) hafði umort á latínu undir klassískum bragarháttum. Útgáfunni fylgdu 40 lög sem eignuð voru kantornum Statíusi Orlhof (1555-1629) en komið hefur í ljós að a.m.k helmingur þeirra er verk annarra tónskálda. Saltari Buchanans barst til Íslands ekki síðar en á öndverðri 17. öld. Má vera að kynni Natans Chytraeusar ( sem stóð fyrir útgáfunni) og Davíðs bróður hans af Arngrími Jónssyni og íslenskum nemendum í Rostock hafi orðið til þess að hann barst til landsins svo skjótt sem raun varð. Lög úr Buchanan saltaranum er að finna í a.m.k átján íslenskum handritum frá 17. og 18. öld. Ýmist er um að ræða stakar raddir , eða tvær eða fjórar saman,. Í þremur handritum eru lögin rituð við latneska texta Buchanans, en í hinum við íslenskar þýðingar þeirra eða frumort-kvæði. Heiti laganna úr Buchanan-saltaranum koma einnig fyrir í fjölda sem lagboðar við íslenskan texta og er þá hægt að rekja notkun þeirra enn lengra.
Ekki er vitað með vissu hverjir iðkuðu helst að syngja lögin úr Buchanan-saltaranum á Íslandi. Fjórradda flutningur hefur þó væntanlega tíðkast innan veggja latínuskólanna. Íslenskir sveinar voru eldri en þýskir þegar þeir hófu nám í latínuskólunum og því flygdi væntanlega skortu á sópranröddum. Ef til vill er þetta orsök þess að nótur við efri raddirnar tvær fylgja sjaldan með í íslenskum handritum. Eggert Ólafsson var meðal síðustu Íslendinga til að yrkja við lög Olthofs. Fjórtán kvæða hans vísa á lagboða úr Buchanan-saltaranum og eru flest úr flokki brúðkaupsljóða skáldsins.
Princeps stelliferis er langlífast laganna úr saltara Buchanans. Við það lag eru til a.m.k þrjár þýðingar frá 17.öld á páskahymna Prúdentíusar, Inventor rutili. Er ein þeirra eignuð sr. Oddi Oddsyni á Reynivöllum en önnur sr. Stefáni Ólafssyni í Vallanesi. Princeps stelliferis var sungið við ýmsa trúarlega texta á 19. og 20. öld og er m.a. að finna í sálmabók Péturs Guðjónssonar 1861. Bjarni Þorsteinsson birtir lagið í umtalsvert breyttri mynd í þjóðlagasafni sínu 1906-1909, í uppskrift sr. Einars Pálssonar eftir söng Sigurveigar Árnadóttur í Lundi í Fnjóskadal árið 1903. Lagið er enn prentað við tvo sálma í Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar 1997. Er ekki vitað til þess að lög Olthofs hafi reynst jafn endingargóð í öðrum löndum enda liðnar ríflega fjórar aldir síðan þau birtust fyrst á prenti.