Thorgrim - Thorkel - Hvad må Gisli tro?

Authors

  • Niels Valentin Author

Abstract

I ritgerðinni er rennt stoðum undir þá tilgátu að það hafi verið Þorkell Súrsson, en ekki Þorgrímur goði sem vó Véstein. Nýjar röksemdir sem höfundur tínir til eru meðal annars þessar: Veganda hafa verið kunnar venjur á Hóli og hversu rekkjum var snúið þegar hús láku. Þetta var Þorkeli kunnugt því að hann hafði áður búið í húsinu. Sbr. hversu greinilega er síðar tekið fram að Gísla væri kunnug húsaskipan á Sæbóli, enda hefði hann gert þar bæinn. Þegar Gísli kemur heim ber hann kennsl á vopnið og hlýtur að gera ráð fyrir að Þorkell hafi framið morðið (sbr. rit Önnu Holtsmark, Studier i Gisla-saga, 1951). Gísli tekur vopnið úr sárinu og tekst með því á hendur hefndarskylduna samkvæmt sögunni; en hann felur spjótið þegar og virðist með því vilja hlífa bróður sínum. Orð Þorkels við Guðríði leiða gruninn að Þorkeli: 'Tíðendi myndi oss þat hafa þótt eina stund.' Og síðari samræður bræðranna sem til er vitnað í greininni hljóta einnig að styrkja Gísla í þeirri trú að Þorkell sé vegandinn. Þegar Þorkell spyr Gísla hvort þeir eigi ekki að taka upp sína fornu vináttu, svarar Gísli með kænsku að það vilji hann gjarna ef Þorkell heiti því að gera með sama hætti ef svipað beri til á hans ævi. Því heitir Þorkell, öruggur og grunlaus. Þorkell efnir heit sitt að vara Gísla við, en neitar að veita honum bjargir. 'Þykki mér mikit af gort við mik, at drepinn er Þorgrímr, mágr minn ok félagi ok virkðavinr.' Hefði hann kveðið svo að orði ef Þorgrímur hefði verið vegandinn? Þá hefði aðeins verið um að ræða makleg málagjöld. Þorkell hlýtur að vera hinn seki, og nú þykir honum Gísli hafa 'höggvið of nærri.' Synir Vésteins vega Þorkel - Gestur hefur tjáð þeim að Auður hafi grun á honum. Synir Vésteins deyja báðir og Auður hverfur í pílagrímsför - og þá veit enginn framar með vissu hver hinn skuggalegi næturgestur var. En Gísli hefur hlotið að eigna Þorkeli vígið. Hann einn hafði til þess tvær ástæður: að hefna fyrir Bárð og fyrir Ásgerði konu sína.

Downloads

Published

2021-07-19

Issue

Section

Peer-Reviewed