Postulínsgerð og hestavíg
Athugun á heimild Jóns Espólíns um hestaþing á Bleiksmýrardal
Abstract
Lokaorð
Staðreyndir máls þessa liggja ljósar fyrir: Eftir fyrirmælum rentukammersins 1779 lætur Jón Jakobsson sýslumaður Eyfirðinga á Espihóli rannsaka, hvort finnanlegur sé á Bleiksmýrardal leirinn bleikja, sem menn telja hentugan til að nota við postulínsgerð. Sú leit ber engan árangur, en upp kemur saga um hestavíg, sem átti sér stað á Bleiksmýrardal endur fyrir löngu. Sögunni er ætlað að skýra uppruna nafnsins á dalnum, en óhætt er að vísa þeirri nafnskýringu eindregið á bug. Sonur Jóns Jakobssonar sýslumanns, Jón Espólín sagnaritari og sýslumaður, notar þessa frásögn næstum orðrétta, en þó með nokkurri aukningu og tímatalsbreytingu í Árbókum sínum löngu síðar, enda er hann ekki fullra 10 ára, þegar sögnin er skráð. Þjóðfræðilega séð er það mikils virði að vita svo nákvæmlega, hvenær frásögn þessi er skráð. Verður ekki annað sagt en sagan beri þess vott, að undir yfirborði þessarar lærdómsaldar hafi leynst alþýðlegur og háþróaður frásagnarháttur, arfur aftan úr öldum. Það beið 19. aldar að kunna að meta hann. Enn er vert að minnast fallegra orða Jóns Sigurðssonar, er hann ritaði í tilefni útgáfu Konrads Maurers á safni íslenskra þjóðsagna á þýsku 1859: Vér horfum með undrun á hinar fornu sögur, sem standa eins og fjallháar eikur, óhræranlegar og fastar, en vér virðum lítils hinar, sem eru í kringum oss eins og smáblóm alls staðar á vegi vorum, spretta upp og vaxa með oss í æskunni, lifa undir tungurótum mæðra og fósturmæðra og gæti orðið að fögrum eikum og blómguðum, en hverfa fyrr, af því vér köstum þeim frá oss eins og visnuðum skarifíflum. Þær hafa aldrei komist á skinn, þess vegna metum vér þær að engu.59 Sagan um hestavígið hefur lengi verið talin gott dæmi um frásagnarhátt Jóns Espólíns, og fræðimenn, bæði innlendir og erlendir, hafa vísa ð til þessarar frásagnar sem sagnfræðilegrar staðreyndar. Ég hef enga löngun til að níða skóinn ofan af Jóni Espólín sem sagnfræðingi, en ég tel það eindregið til bóta að geta gert sér grein fyrir vinnubrögðum hans. Þjóðsögur hljóta jafnan að vera varhugaverðar sagnfræðiheimildir. Þær verða því alltaf að sæta ströngu mati. í lokin er til þess mælst, að sagnfræðingar endurmeti sagnfræðilegt heimildargildi frásagnarinnar um hestavíg á Bleiksmýrardal (um 1400 eða um 1623) í Ijósi þeirrar vitneskju, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan í helst til löngu máli. Vegna þeirra, sem kann að þykja gömul stafsetning mjög afskræmiteg, skal skýrsla sú eða frásögn um hestavígið, sem Jón Jakobsson sendi til Kaupmannahafnar með bréfi sínu 6. september 1779, að lokum skráð í þeim búningi, sem nú tíðkast helst að hafa á rituðu máli.