De to redaksjonene av Harðar saga
Abstract
Harðar saga er í heild sinni aðeins varðveitt í einu skinnhandriti, AM 556a 4to, sem ritað er um 1475. Til eru allmörg pappírshandrit, en þau eru öll runnin frá 556a. Meðal brotanna úr svonefndri 'Pseudo-Vatnshyrnu', AM 564a 4to frá upphafi 15. aldar, er eitt blað úr styttri gerð sögunnar sem samsvarar átta fyrstu kapítulunum í 556. Margt hefur verið ritað um samband þessara tveggja sögugerða, og er yfirlit um það að finna í útgáfu Sture Hasts af sögunni (1960), bls. 96 o.áfr., og í bók Theodore M. Anderssons, The Problem of Icelandic Saga Origins (1964), bls. 146 o.áfr. Flestir fræðimenn hafa verið þeirrar skoðunar að 'Pseudo-Vatnshyrna' geymi söguna í sinni upprunalegu gerð og að hún sé aukin í 556. Guðbrandur Vigfusson hélt þessari skoðun fyrstur fram í inngangi Sturlunga sögu (1878), en síðar hafa tekið í sama streng meðal annarra Finnur Jónsson, Jón Jóhannesson, Sigurður Nordai, Sture Hast og Theodore M. Andersson. Onnur skoðun á sambandi sögugerðanna kemur fram hjá Einari Ól. Sveinssyni í bók hans Dating the Icelandic Sagas (1958) sem síðar kom út á íslensku í aukinni gerð (Ritunartími íslendingasagna, 1965). í Ritunartíma segir hann um lengra textann (bls. 125-26): . . . yfirleitt orkar þessi texti svo á máltilfinningu mína, að hann sé frá 14. öld. En auðvitað má hann vel vera saminn upp úr 13. aldar texta. Frá sama frumtexta mun svo Vatnshyrnusagan komin, en hún er áreiðanlega stytt, og hygg ég sumt, sem á milli ber gerðunum tveim, stafa af villum sem komið hafi inn, þegar styttingin í Vatnshyrnutextanum var gerð. I undanfarandi ritgerð er rennt stoðum undir tilgátu Einars Ól. Sveinssonar með nákvæmum samanburði sögutextanna. Telur höfundur engan vafa á því að bæði handritin, 556 og 564, séu runnin frá sama frumtexta og sé hann að öllum líkindum styttur í 564. Styttingin er fremur hroðvirknislega gerð, og mun tilgangurinn hafa verið sá að gera nothæft ágrip af aðalefni sögunnar.
Greinarhöfundur telur líklegt að sagan hafi einnig verið stytt í hinni 'eiginlegu' Vatnshyrnu, á sama hátt sem Flóamanna saga hefur verið stytt í því handriti. Telur hann líklegt að hinir styttu textar hafi verið gerðir úr garði seint á 14. öld, áður en sögurnar voru felldar inn í þessi tvö miklu safnhandrit íslendingasagna.