The neglected genre of Rímur-derived prosed and post-reformation Jónatas saga
Abstract
Á 14. öld komst í tísku að snúa sögum frá fyrri öldum í bundið mál, hinar svokölluðu rímur; en síðar breyttist tískan aftur og voru þá ritaðar frásagnir í óbundnu máli eftir kveðskap fyrri tíma. Þessum „rímna-sögum" frá síðari öldum hefur til þessa verið lítill gaumur gefinn, þótt slíkar endursagnir virðist vera nógu margar til þess að tala megi um heila bókmenntagrein. Hér og hvar í útgáfum eru lauslega nefndar ýmsar slíkar frásögur, svo sem Hrings saga ok Tryggva, sem runnin er frá rímunum Geðraunum, endursögn Krossrímna í Lbs. 714, 8vo og Hemings þáttur gerður eftir Hemings rímum Benedikts Sigurðssonar sem ortar voru 1729. Auk þess eru 22 slíkar endursagnir rímna taldar og flokkaðar í ritgerðinni. Til þessa hefur ekki verið gerð nein skrá um slíkar "rímna-sögur", en þær skipta líklega tugum. í JS 46, 8vo er t.a.m. sérstök gerð af Samsons sögufagra sem að nokkru er runnin frá óprentuðum rímum eftir Guðmund Bergþórsson ortum 1683. Rímurnar eru nokkuð langar, 16 alls, og hafa notið talsverðra vinsælda því að þær eru til í 8 handritum. Fyrri hluti sögunnar er gerður eftir 8 fyrstu rímunum með þeim hætti að mansöngvarnir eru teknir upp en sagan síðan sögð í lausu máli. En síðan er horfið frá rímunum, og er síðari hluti hinnar nýju sögu nokkuð nákvæm uppskrift gömlu sögunnar (frá og með 11. kap.). Stundum getur reynst torvelt að greina slíkar endursagnir rímna frá öðrum sem gerðar voru eftir eldri frásögnum í lausu máli eða frá sögum þýddum úr erlendum málum. Ágætt dæmi um slíkt verk er Jónatas saga sem varðveitt er í einu pappírshandriti frá 18. öld, JS 408, 8vo. Skrifari er Sigurður Magnússon í Holtum í Hornafirði, og er uppskriftin dagsett 15. febrúar 1772. Sagan er gerð eftir Jónatas rímum sem eru þrjár að tölu og munu ortar á seinna hluta 16. aldar, en heimild þeirra er aftur á móti svonefnt Jónatas ævintýri frá 15. öld. Ljóst er að sagan getur ekki verið samin beint eftir ævintýrinu, því að með þeim eru engar beinar líkingar í orðalagi. í sögunni eru ýmis frávik frá ævintýrinu, en þau má öll rekja til rímnanna. í ritgerðinni er sýnt hvernig höfundur sögunnar snýr ljóðunum í óbundið mál. Hann fer að ýmsu leyti sjálfstætt með heimild sína, fellir nokkuð úr en eykur öðru við, og þó fremur í lýsingum en í efni. Orðalagslfkingar eru talsverðar sem vænta má, en þó er athyglisvert að í sögunni verður naumast vart endurhljóms frá ljóðformi rímnanna, hvorki frá stuðlasetningu né fornyrðum eða flóknum kenningum sem nóg er af í rímunum. Virðist svo sem höfundur hafi vísvitandi reynt að dylja hinn skáldlega uppruna sógunnar. Hann eyðir jafnmiklu rúmi til að endursegja síðustu rímuna sem hinar fyrri tvær. Líklegasta skýringin er sú að í lokarímunni er meira af skemmtilegu efni sem vert var að endursegja.