Sigurd Hjort og hans to børn i Islandske kilder
En sagnhistorisk undersøgels
Abstract
í Heimskringlu (5. kap.) er sagt frá Sigurði hirti, konungi í Hringaríki, hann var meiri og sterkari en hver maður annarra. Haki Haðaberserkur réðst að honum óvörum á skógi með þrjá tigu manna og felldi hann, en særðist sjálfur og lét hönd sína og tólf menn af liði sínu. Tók hann síðan herskildi börn Sigurðar, Ragnhildi og Guttorm. Hugðist hann gera brúðkaup til Ragnhildar er hann yrði heill sára sinna. En er Hálfdan konungur svarti spurði þessi tíðindi, sendi hann mann sinn Hárek gand eftir Ragnhildi með hundrað manna. Brenndu þeir inni húskarla Haka, tóku systkinin ungu og óku þeim yfir vatnsísinn í tjölduðum vagni. Haki fór eftir þeim niður að vatninu, en lagðist þar á sverð sitt og beið bana. Síðan fékk Hálfdan konungur Ragnhildar og átti með henni soninn Harald hárfagra. Guttormur var hertogi fyrir liði Haralds er hann lagði Noreg undir sig. Eftir það stjórnaði hann landi um Víkina og Upplöndin þá er konungur var eigi nær og sat oftast í Túnsbergi.
Svipaðar frásagnir um Sigurð hjört og börn hans koma fram einum hundrað árum seinna í svonefndum Ragnarssonaþætti í Hauksbók. Talið er að í báðum þessum ritum sé farið eftir munnmælasögnum, en í þættinum er miklu fleira sagt frá Sigurði en í Heimskringlu. í Egilssögu er einnig sagt að Guttormur sonur Sigurðar hjartar væri móðurbróðir Haralds hárfagra, og þar eru nefnd börn hans fjögur, tveir synir og tvær dætur. Eftir andlát Guttorms sendi konungur tvo trúnaðarmenn sína á skipi að sækja sonu hans til Víkurinnar og flytja þá til Þrándheims. Kveldúlfur og Skallagrímur voru þá búnir til íslandsferðar. Þeir urðu varir við ferð konungsskipsins og réðust á það til hefnda fyrir Þórólf Kveldúlfsson sem konungur hafði tekið af lífi. f orrustunni fórust báðir hinir ungu frændur Haralds konungs. í vísu sem tilfærð er í sögunni og eignuð Skallagrími greinir frá þessum atburðum. Þar eru sveinarnir kallaðir „Ynglings börn", en það stríðir gegn því sem í sögutextanum segir, að Guttormur faðir þeirra væri móðurbróðir Haralds hárfagra og því ekki af ætt Ynglinga. (Sumir fræðimenn telja raunar að vísan muni ekki með réttu eignuð Skallagrími, en hún er a.m.k. ekki innskot í söguna og því ekki annars flokks heimild gagnvart lausamálinu.) Sveinbjörn Egilsson taldi að orðið Ynglingur (eða ynglingur) í eintölu merkti sama sem konungur, en í fleirtölu væri það haft um menn af Ynglingaætt. En í undanfarandi ritgerð er sýnt fram á að þetta sé mjög vafasamt. Hvarvetna annars í fornum kveðskap er orðið Ynglingur (í eint.) greinilega haft um menn af Ynglingaættinni. Pað vegur þungt í því sambandi að í Arinbjarnarkviðu talar Egill um Eirík blóðöx sem „ríkan konung, Ynglings bur", þ.e. son Ynglinga, mann af Ynglingaætt. í Landnámu (Sturlubók) eru synir Guttorms hinsvegar taldir bræðrungar Haralds hárfagra, jafnframt því sem Guttormur faðir þeirra er sagður sonur Sigurðar hjartar. Samkvæmt því hefur Guttormur verið föðurbróðir Haralds hárfagra, en ekki móðurbróðir hans. Þessu ber saman við vísu Skallagríms, sem kallar sveinana „börn Ynglings", en er hinsvegar í mótsögn við Heimskringlu og við lausamálið í Egilssögu. Höfundur ritgerðar skýrir þetta misræmi á þann veg að tveir menn hafi borið Guttorms nafn á sömu slóðum í Noregi og um sömu mundir, og hafi þeim verið blandað saman í arfsögnum. Annar var Guttormur hertogi, föðurbróðir Haralds hárfagra, hinn Guttormur sonur Sigurðar hjartar og bróðir Ragnhildar drottningar. Frá hinum síðarnefnda var sagt í alkunnri og ítarlegri sögu um garpinn Sigurð hjört, og því var eðlilegt að hann tæki í sögnum sæti Guttorms hertoga sem verið hefur lítt kunnur á íslandi. í Landnámu má sjá hversu sagnir um þessa tvo menn hafa runnið saman með þeim afleiðingum að ósamræmi verður í ættartengslunum.