Hetjur og hugmyndir
Um endurritanir og túlkanir Gríms Thomsen á fornum textum
Útdráttur
Grímur Þorgrímsson Thomsen varð doktor í fagurfræði og þar með brautryðjandi í íslenskri menningarsögu. Hann gaf út á dönsku (1846 og 1854) tvær bækur um það hvernig íslenskir miðaldatextar gætu orðið leiðarhnoða og viðmið í norrænni menningu. Grunnhugmynd hans er sú að hinn sjálfstæði miðaldamaður og víkingur sé forveri og nauðalíkur ungum borgara á nítjándu öld, treysti á mátt sinn og megin, þrái frelsi og sé tilbúinn að standa og falla með gjörðum sínum og hugmyndum. Hetjan stendur keik andspænis aðli, konungum og náttúruöflum. Slíkar hugmyndir áttu hljómgrunn í rísandi borgarastétt. Hún var ekki fædd til valda eins og aðallinn en hagur borgaranna blómgaðist í skjóli iðnbyltingar. Lestur Gríms á miðaldatextum leitaðist við að renna sögulegum stoðum undir viðhorf þeirra sem sóttu af jaðrinum og inn að miðju valdsins. Hugmyndir hans eru hreinræktað afkvæmi rómantísku stefnunnar og bækur hans minna á það hversu djúpar rætur þeirrar stefnu eru. Það gildir bæði um tengsl rómantíkurinnar við miðaldir og þau gildi sem hampað er í vestrænni menningu.
í Sögubrotum sínum eða Sagastykker, túlkar Grímur miðaldatexta í því augnamiði að réttlæta hugmyndir og drauma norrænna borgara á nítjándu öld.