Hugmyndafræði og sjálfsmynd á Norðvesturlandi á síðmiðöldum
Rannsókn á AM 152 fol.
Útdráttur
Greinin fjallar um hið glæsta sagnahandrit AM 152 fol. frá öndverðri 16. öld á heildstæðan hátt. Annar skrifara þess var Þorsteinn Þorleifsson, hálfbróðir Björns Þorleifssonar á Reykhólum. Færð eru rök fyrir því að Björn hafi haft hönd í gerð handritsins og e.t.v. stýrt efnisvali. Sögurnar ellefu í handritinu eru af ýmsum toga og tilheyra Íslendinga-, fornaldar- og riddarasögum en þrátt fyrir ólík sögusvið og umgjörð eiga þær mörg þemu sameiginleg. Þær tjá m.a. ákveðna afstöðu til siðferðislegra gilda og samfélagslegrar hegðunar og fela þannig í sér sjálfsmyndarsköpun og hugmyndafræði þess eða þeirra sem að handritinu stóðu.
Sögurnar í handritinu AM 152 fol. eru margar hverjar þroskasögur um unga pilta af háum stigum. Þeir takast m.a. á við fúlmenni sem sýna af sér ofstopa, óbilgirni, illsku, frekju, valdagræðgi, dramb og undirferli. Þessar persónur eru einatt sýndar í neikvæðu ljósi andstætt hetjunum og eru menn sem taka óskynsamlegar ákvarðanir, stofna til deilna, beita óheiðarlegum aðferðum og hegða sér illa í siðaðra manna samfélagi. Þung áhersla er lögð á að bræður standi saman og styðji hver við annan gegn andstæðingum sínum. Leidd eru rök að því að sögur um menn sem sýna bræðrum sínum hollustu og uppfylla dygðir á borð við stillingu, sanngirni og réttlæti gætu hafa höfðað sérstaklega til Björns og Þorsteins þar sem þeir stóðu í áralöngum erfðadeilum við frænda sinn, Björn Guðnason, sem beitti sér gegn Birni og systkinum hans af fullum krafti.
Hins vegar fjalla margar sagnanna í handritinu um tröllslega hegðun og einkum kynferðislegt ofbeldi trölla gegn konum. Þrátt fyrir að þessi hegðun sé oftast jaðarsett og ‘öðruð’ (e. othered) kemur fyrir að söguhetjurnar hagi sér á sama hátt. Í þeim tilfellum er ofbeldið sýnt í gamansömu ljósi eða undir rós og þar með réttlætt eða þaggað. Þetta bendir til tvíbentrar afstöðu til kynferðislegs ofbeldis og skarast eðli manna og trölla í mörgum tilfellum þegar nánar er að gáð. Hægt væri að túlka tröll í tengslum við ótta við veru erlendra sjó- og verslunarmanna á Íslandi á síðmiðöldum en þau eru e.t.v. ekki síður tæki til að ræða kynferðisbrot og ofbeldi í eigin ranni.