St Michael and the sons of Síðu Hallur
Útdráttur
Í greininni er sjónum beint að sambandi Síðu-Halls Þorsteinssonar við Mikael erkiengil eins og tilurð þess er lýst í tveimur heimildum sem greina frá persónulegum trúskiptum hans. Mikael var vinsæll dýrðlingur í árdaga kristni á Norðurlöndum og því í sjálfu sér ekki óvænt að hann léki hlutverk í trúskiptum Halls. Þó er það sérstaklega eftirtektarvert að Mikael kemur einnig við dauðalýsingar tveggja sona Halls, Þiðranda og Ljóts, þótt óbeint sé. Frásögnin af dauða Þiðranda af völdum dísa í heiðni líkist mjög helgisögn í Mikaels sögu, biblíusögum tengdum honum og myndmáli í hinu síðskráða Draumkvæde, en frásögnin af dauða Ljóts í bardaga á alþingi 1012 á sér hliðstæðu í Þiðranda þætti sem kallar á samanburð. Í viðbrögðum Síðu-Halls við dauða sona sinna sést auk þess glögglega að honum hefur verið ætluð bæði skýr vitund um sérkenni heilaleika erkiengilsins og farsæld til að fylgja dæmum hans.