Z-texti Laxdæla sögu – textafræðileg tilraun

Höfundar

  • Haukur Þorgeirsson Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/gripla.33.1

Útdráttur

Kristian Kålund skipti handritum Laxdæla sögu í x-flokk og y-flokk. Í y-flokknum er eina heila skinnbókin, Möðruvallabók, og hefur hún verið lögð til grundvallar öllum útgáfum. Hins vegar hefur z-textinn aldrei verið gefinn út í heild og í þessari grein er kannað hvernig gera mætti slíka útgáfu úr garði. Tæplega 43% sögutextans má finna í miðaldabrotum af z-flokknum en pappírshandrit frá 17. öld og síðar varðveita z-textann allan. Kålund og aðrir útgefendur sögunnar hafa talið textann í þessum pappírshandritum of slæman til að hægt sé að reisa á þeim útgáfu. Hér er þessi hugmynd könnuð með dálítilli tilraun. Athugaður er sá hluti sögunnar sem varðveittur er í elsta broti sögunnar, 13. aldar blaðinu D2. Texti þessa brots er borinn saman við textann í fimm handritum sem varðveita söguna í heild. Þessir textabútar eru bornir saman með svokallaðri Levenshtein-fjarlægð en með henni er mælt hversu mörgum orðum þyrfti að breyta, eyða eða bæta við til að breyta einum texta í annan. Niðurstöðurnar sjást í Töflu 1 og á Mynd 1 má enn fremur sjá stemma yfir fimm meginhandrit sögunnar. Niðurstaða greinarinnar er að 17. aldar handritið AM 158 fol. sé sú heimild sem hafi texta líkastan 13. aldar brotinu og fer raunar mun nær því en Möðruvallabók og hin handritin sem textagildi hafa. Má því vel hugsa sér að leggja AM 158 fol. til grundvallar við útgáfu á z-textanum.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýnt efni