Heimildir um klausturkirkjuna og bókasafnið á Þingeyrum
DOI:
https://doi.org/10.33112/gripla.33.8Útdráttur
Benediktsklaustrið á Þingeyrum í Húnaþingi vestra var fyrsta klaustur á Íslandi, stofnað snemma á 12. öld. Það er einkum frægt fyrir bókmenntaiðju og handrit sem þar voru gerð og sum hver eru enn varðveitt. Allar leifar klausturbygginganna eru nú horfnar af yfirborði jarðar en til eru nokkuð nákvæmar lýsingar á staðnum í úttektum frá 1684 og 1704 sem varðveittar eru í Skjalasafni umboðanna á Þjóðskjalasafni. Auk þess standa nú yfir fornleifarannsóknir á Þingeyrum sem þegar hafa gefið af sér mikilvæga nýja þekkingu um staðinn, t.d. um staðsetningu kirkjunnar. Úttektir Þingeyraklausturs má bera saman við önnur skjöl, annála og máldaga frá miðöldum til þess að fá heillegri mynd af byggingum og innviðum klaustursins, einkum af kirkjunni þar sem bókasafn munkanna var geymt. Þessi grein er formáli að fyrstu útgáfu úttektanna og ný tilraun til að segja sögu klausturkirkjunnar á Þingeyrum sem virðist hafa staðið að mestu leyti heil fram til 1695 þegar danski embættismaðurinn Lárus Gottrup lét rífa hana og byggja nýja.