Greinin fjallar um handrit, varðveislu og dreifingu textans Viðrǿða líkams ok sálar, elstu umfjöllun um tengsl sálar og líkama sem varðveitt er í norrænni þýðingu. Um er að ræða fremur nákvæma en þó samþjappaða þýðingu á engilnormönsku kvæði sem gengur ýmist undir heitinu Desputisun de l’âme et du corps eða Un Samedi parnuit. Norræni textinn er varðveittur í fjórum handritum: AM 619 4to (Norska hómilíubókin), AM 696 XXXII 4to, AM 764 4to, og JS 405 8vo. Með því að bera saman og kanna fjölda þeirra leshátta sem eru samhljóða staðfestir greinarhöfundur og bætir við stemma (ættartré handrita) sem sett var fram af Ole Widding og Hans Bekker-Nielsen árið 1959. Sú staðreynd að í norræna textanum eru leshættir sem eru dæmigerðir fyrir það sem nýlega hefur verið skilgreint sem „meginlandshefð“ engilnormönsku handritanna bendir til þess að upphaflegt og nú glatað frumrit textans hafi verið franskt skinnhandrit sem að öllum líkindum var gert í flæmsku benediktínaklaustri (Picardy, í norðausturhluta Artois eða Hainaut) á síðari hluta tólftu aldar. Síðar kann handritið að hafa borist frá Flanders (Flæmingjalandi) til systurklausturs benediktína í Noregi – eins og Munkeliv í Björgvin – enda vel þekkt og staðfest að ábatasamt tengslanet verslunar og klausturmenningar var á milli skrifarastofa í klaustrum í Flanders og Noregi á tímabilinu frá tólftu til fjórtándu aldar.