Bókasafnið í Bræðratungu

handritaeign og einkabókasöfn á Íslandi eftir siðaskipti

Höfundar

  • Katelin Marit Parsons Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/gripla.34.8

Útdráttur

Á Íslandi voru ekki sett á fót bókasöfn eða aðrar stofnanir til þess að halda utan um dýrmæt handrit og bækur á 17. öld heldur skipti handritaeign einstaklinga sköpum fyrir varðveislu bókmennta. Þó er mun minna vitað um bókakost einstaklinga og einkabókasöfn á þessum tíma en um vinnu handritasafnara á borð við Árna Magnússon. Við andlát Brynjólfs biskups Sveinssonar (1605– 1675) varð bókasafnið í Bræðratungu í Biskupstungum eitt mikilvægasta handritasafn hérlendis til skamms tíma en Brynjólfur arfleiddi frænku sína Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu (1623–1677) að öllum íslenskum bókum og handritum sínum til helmingaskipta við Sigríði Halldórsdóttur í Gaulverjabæ (1622–1704). Bókasafnið í Bræðratungu og hlutverk Helgu Magnúsdóttur við að byggja það upp er meginefni þessarar greinar. Færð eru rök fyrir því að Helga hafi átt frumkvæði að því að styrkja bókakost Bræðratungu strax eftir fráfall eiginmanns síns Hákonar Gíslasonar (1614–1652). Farið er yfir þau handrit sem tengja má við Helgu en að minnsta kosti níu handrit og handritabrot voru í Bræðratungu á tímabilinu um 1653–1677. Handritaeign Helgu og barna hennar mun hafa verið liður í að styrkja samfélagslega stöðu fjölskyldunnar í Bræðratungu enda fól hún í sér virka þátttöku í handritamenningu samtímans. Því miður er varðveisla Bræðratunguhandritanna ekki góð. Tvö skinnhandrit frá Bræðratungu glötuðust illu heilli í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728 (*Bræðratungubók og *Jónsbók) en aðrir þættir koma einnig til. Aðeins tvö barnabörn Helgu lifðu stórubóluna af og bæði voru þau barnlaus þannig að safnið tvístraðist fljótt. Samband Árna Magnússonar, handritasafnara og prófessors, við erfingja barna Helgu var fjandsamlegt á köflum en hann deildi við Odd Sigurðsson lögmann (1681–1741) sem var síðasti eftirlifandi afkomandi Helgu og einnig við Magnús Sigurðsson í Bræðratungu (1651–1707) sem var ekkill Jarþrúðar, yngstu dóttur Helgu, og sakaði Árna um ástarsamband við Þórdísi síðari konu sína eins og frægt er orðið. Þíða kom þó í samskipti Odds við Árna sem olli því að Árni fékk nokkur handrit að láni frá honum. Í viðauka er farið stuttlega yfir nokkur handrit Odds sem komu hugsanlega úr Bræðratungu.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-15

Tölublað

Kafli

Ritrýnt efni