Endurvinnsla og endurnýting í íslenskum uppskafningum frá miðöldum og á árnýöld

Höfundar

  • Tom Lorenz Institutt for språk og litteratur NTNU–Noregs teknisk-naturvitskaplege universitet Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/gripla.35.1

Útdráttur

Á Íslandi á miðöldum og einnig á árnýöld voru uppskafningar algengt fyrirbæri, en svo nefnast handrit þar sem upphaflegt letur hefur verið fjarlægt, skafið upp, og nýtt letur sett í staðinn. Þetta eru handrit sem höfðu skemmst, verið eyðilögð eða á annan hátt orðið gagnslaus. Í flestum tilfellum var handrit sem talið var ónýtt tekið í sundur svo að hægt væri að búa til nýtt úr efni þess sem annars hefði verið litið á sem rusl eða úrgang. Endurnýting bókfells eða skinns var algeng á Íslandi bæði á miðöldum og síðari öldum en náði þó sögulegu hámarki á öldinni eftir siðbreytingu (siðaskipti) þegar uppskafin skinnhandrit sem áður höfðu geymt latneskar bækur úr kaþólsku voru notuð til að skrifa upp trúarlegt og lagalegt efni enda var það ódýrari og aðgengilegri kostur en pappír. Auk þess eru á Íslandi varðveitt tvö skinnhandrit sem hafa að geyma Jónsbók prentaða á uppskafning úr skinni. Alls staðar annars staðar í Evrópu var algengt að nota uppskafin handrit, bæði á miðöldum og á árnýöld, en prentun á uppskafninga virðist hins vegar vera séríslenskt fyrirbæri. Í öðrum tilfellum fékk ónýtt eða gagnslaust handrit nýtt hlutverk og nýtt samhengi þegar ákveðnum atriðum í upphaflega handritinu var skipt út með nýjum en öðrum haldið. Eftir siðaskiptin á Íslandi urðu kaþólskar messubækur, eins og AM 618 4to, NKS 1931/NKS 340 8vo og AM 90 8vo, að uppskafningum til þess að hægt væri að nýta þær og laga að nýjum sið. Á svipaðan hátt var hægt að nýta handrit skrifuð á íslensku með því að setja nýtt innihald í stað þess gamla (AM 161 4to) eða með því að fjarlægja óæskilega texta eða efnisgreinar (AM 556 a 4to og AM 586 4to). Þar að auki eru dæmi um að uppskafningar hafi verið búnir til í þeim tilgangi að falsa forn skjöl. Þar sem engin íslensk handrit af því tagi frá miðöldum hafa varðveist, verður að gera ráð fyrir að sú tegund af uppskafningum hafi orðið til á árnýöld. Til að lýsa betur mismunandi gerðum af íslenskum uppskafningum legg ég til að hugtakið uppskafningur verði endurskilgreint sem marglaga ritaður gripur sem hefur bæði neðra lag þar sem áður var frumtexti sem annaðhvort hefur verið fjarlægður algjörlega, eða innihald án texta, og efra lag með texta sem síðar var bætt við, eða innihald án texta. Enn fremur legg ég til að hugtakið „varðveittir þættir“ verði notað um þá þætti í upprunalegu handriti sem ekki voru fjarlægðir en viljandi haldið og felldir inn í nýja handritið sem sérstakur hluti af uppskafningum til viðbótar við áðurnefnt neðra og efra lag. Með þessari skilgreiningu legg ég til að greint verði á milli endurvinnslu bókfells og endurnýtingar texta í handriti og þetta tvennt skilgreint sem tvær megingerðir uppskafninga.

Niðurhal

Útgefið

2024-12-16

Tölublað

Kafli

Articles