Fingraför Sturlu í Þórðar sögu kakala
Stílmælingar á innbyrðis tengslum sagna í Sturlunga sögu
DOI:
https://doi.org/10.33112/gripla.35.2Útdráttur
Höfundarannsóknir hafa verið að koma fram að nýju hér á landi eftir fremur langt hlé á þessu fræðasviði. Nútíma tölvutækni hefur opnað fyrir nýjar aðferðir í þess konar rannsóknum og gert þær aðgengilegar fyrir fræðimenn. Nýleg stílmæling á Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar leiðir m.a. í ljós að það séu stílleg líkindi með henni og öðrum sögum í Sturlunga sögu. Þessi niðurstaða gefur tilefni til að rannsaka nánar höfundskap Sturlu í Sturlungu. Hér er fyrst gerð höfundarannsókn á Þórðar sögu kakala, en hún mælist í mestri stíllegri nálægð við Íslendinga sögu af sögum í Sturlungu. Í þessari rannsókn er beitt bæði stílmælingum og bókmenntafræðilegum aðferðum. Fyrst er gerð nákvæmari stílmæling á innbyrðis tengslum sagna í Sturlungu, þ.e. hlaupandi delta-mæling (án skörunar), þar sem 5000 orða sögubútar eru bornir saman sem sjálfstæðir textar. Þessi aðferð getur m.a. greint hvort einn eða fleiri höfundar hafi skrifað tiltekna sögu. Niðurstaðan leiðir í ljós að fingraför Sturlu komi vel fram í Þórðar sögu og að hún sé jafnframt frekar vel varðveitt í Sturlungu. Þá er gerð athugun á höfundareinkennum í Þórðar sögu þar sem vinnubrögð höfundar, frásagnarháttur og stíll hans er kannaður í ljósi sagnarita Sturlu og annarra samanburðartexta. Niðurstöður þessara athugana benda sterklega til að Sturla Þórðarson sé höfundur Þórðar sögu kakala.