Athugasemd við fyrirsögnina “Tveggja Postola Saga” í Postola sögum Ungers
DOI:
https://doi.org/10.33112/gripla.35.4Útdráttur
Í útgáfu sinni á Postola sögum (Christiania 1874) setti hinn afkastamikli útgefandi íslenskra fornsagna, Norðmaðurinn Carl Richard Unger (1817 –1897), fjórar sams konar fyrirsagnir yfir jafnmörg pör forníslenskra þýðinga úr latínu af Apókrýfum postulasögum: tveggia postola saga petrs ok pals, tveggia postola saga jons ok jacobs, tveggia postola saga philippus og jacobs og tveggia postola saga simonis ok jude. Í inngangi sínum segir Unger að allar fyrirsagnir í útgáfunni sem prentaðar séu með hástöfum séu hans eigin til- búningur en skáletraðar fyrirsagnir og titlar komi úr handritunum sem textar útgáfunnar séu grundvallaðir á. Ofangreindar fyrirsagnir eru allar prentaðar með hástöfum í útgáfunni. Höfundur greinarinnar athugar nánar stöðu slíkra fyrir- sagna í útgáfunni og staðfestir að þær koma hvergi fyrir í handritum, eins og Unger bendir á, heldur eru búnar til gagngert fyrir þessa útgáfu og þá líklega með heiti messudagsins „Tveggja postola messa,“ hinn 1. maí, í huga en dagurinn var helgaður Pilippusi og Jacobi postulum. Enn fremur er almenn notkun þessara tilbúnu yfirskrifta Ungers meðal síðari fræðimanna rakin til Kristians Kålund (1844–1919), höfundar handritaskrárinnar Katalog over den Arnamagnæanske hånd- skriftsamling, sem án athugasemda tók upp fyrirsagnir Ungers og notaði þær í lýsingum sínum á innihaldi handrita.