Gervi-Egill og vísur hans í Egils sögu
DOI:
https://doi.org/10.33112/gripla.35.6Útdráttur
Þessi grein fjallar um eina lausavísu í 49. kafla Egils sögu. Egill kveður vísuna um sjóorrustu þar sem hann tekst á við þrjótinn Eyvind skreyju. Vísan sýnir nokkur merki þess að hafa verið kveðin af söguhöfundi frekar en af Agli sjálfum. Fyrst er vísan borin saman við aðrar heimildir um hinn dularfulla Eyvind skreyju, þar á meðal lausavísur eftir Eyvind skáldaspilli sem eru varðveittar í Fagurskinnu. Síðan er gerð grein fyrir tungumáli vísunnar, bragarhætti og stíl og borið saman við aðrar vísur í sögunni sem ætla má að séu ekki eftir Egil sjálfan heldur annað skáld sem kalla mætti Gervi-Egil. Í rannsókninni er bent á eiginleika sem eru dæmigerðir fyrir Gervi-Egil, til dæmis dálæti á orðinu ‘víkingur’ og endursköpun vísuorða úr öðrum kvæðum. Nærtækast er að Gervi-Egill sé höfundur sögunnar og í greininni er grennslast fyrir um vinnubrögð hans, þar á meðal heimildir hans og getu til að líkja eftir fornum kveðskap. Að lokum eru þessir eiginleikar metnir í ljósi þeirrar útbreiddu fræðitilgátu að höfundur Egils sögu og vísnanna hafi verið Snorri Sturluson.