Tvær Gerðir Skáldskaparmála
Útdráttur
Í greininni er byggt á nýlegum athugunum sem styðja þá hugmynd að skoða beri Skáldskaparmál og Gylfaginningu (og raunar aðra hluta Eddu) sem sjálfstæð verk. Er munur tveggja gerða Skáldskaparmála, Konungsbókargerðar (oft nefnd RTW) og Uppsalabókargerðar, skýrður í fyrsta lagi með rökum úr kennslubókarfræðumog í öðru lagi er bent á að hugsanlega megi skýra tvær sérkennilegar og óvenjulega stílaðar goðsagnir í Uppsalagerð með tilgátu um skemmdir í forriti handritsins DG 11 4to (Uppsala-Eddu).
Að mati höfundar dugir þetta þó ekki til að skýra allan mun gerðanna tveggja og færð eru rök fyrir því að texti Uppsalagerðar byggi einnig á heimildum sem leita verði aftar í tíma en til frumrits Konungsbókargerðar, bæði að því er snerti kenningalista Óðins og sérkennilega styttan texta vísuhelmings úr Sexstefju, þar sem öll rök hnígi til þess að fyrir hafi legið skrifuð gerð kvæðisins og vísuhelmingurinn hafi verið eitt af stefjum drápunnar.