Eiríks saga víðfǫrla í miðaldahandritum

  • Kolbrún Haraldsdóttir Friedrich-Alexander-Universität
textafræði, handritafræði, eftirmáli Eiríks sǫgu víðfǫrla í Flateyjarbók, hjálpræðissaga, upphafssögur miðaldabóka

Útdráttur

Eiríks saga víðfǫrla segir frá norska konungssyninum Eiríki, sem heldur suður í heim að leita Paradísar. Sagan er varðveitt í u.þ.b. 60 handritum í fjórum mismunandi gerðum: A, B, C og D. Af þeim eru A- og B-gerðirnar frá miðöldum, og C-gerðin, sem einungis er varðveitt í 17. aldar handritum, hefur verið það sömuleiðis, en D-gerðin er blendingsgerð líklegast frá 17. öld. Frá miðöldum eru því aðeins varðveitt Eiríks sǫgu-handrit af A- og B-gerð, fimm að tölu. Af A-gerð: 1. GKS 1005 fol., Flateyjarbók, frá 1387 (sagan heil); 2. AM 720 a VIII 4to frá fyrri helmingi 15. aldar (rúmlega þriðjungur varðveittur); 3. AM 557 4to, Skálholtsbók, frá því um 1420 (tæplega helmingur varðveittur); af B-gerð: 4. AM 657 c 4to frá 1340–1390 (sagan heil); 5. GKS 2845 4to frá því um 1420–1450 (rúmlega helmingur varðveittur).

Í greininni er kannað, hvers vegna Eiríks saga víðfǫrla var skráð í miðaldahandritin fimm og henni skipað þar niður í handritunum sem raun ber vitni. – í Flateyjarbók segist skrifari/ritstjóri Flateyjarbókar í eftirmála við söguna hafa sett hana fremst í bókina til að minna á, að „ekki er traust trútt nema af Guði“ og það sé lykillinn að eilífu lífi. Þar af má álykta, að á sama hátt og Eiríks saga víðfǫrla er saga leitarinnar að Paradís, er sérhver saga – Noregsveldissagan Flateyjarbók eins og hver önnur saga – saga leitarinnar að Paradís, saga hjálpræðisins. Eiríks sǫgu víðfǫrla hefur því verið valinn staður fremst í Flateyjarbók til að minna á hjálpræðissöguna. – AM 720 a VIII 4to er brot tveggja upphaflega samhangandi blaða, á fyrra blaðinu eru lokin á Maríujartein og upphaf Eiríks sǫgu víðfǫrla, en á síðara blaðinu er brot úr Lilju. Líkur benda til þess, að handritið hafi í öndverðu hafist með Maríujarteininni og Eiríks sǫgu víðfǫrla, dæmigerðu inngangsefni miðaldabóka. – í AM 557 4to, Skálholtsbók, stendur Eiríks saga víðfǫrla nú næst á eftir Hróa þætti heimska fremst í áttunda og síðasta kveri handritsins. Rök hafa verið færð fyrir því, að áttunda kver hafi í öndverðu verið í upphafi handritsins og verið fyrr skrifað en sögurnar, sem nú eru fremst. Eiríks saga víðfǫrla hefur því upphaflega staðið framarlega eða nánast fremst í handritinu. – í AM 657 c 4to stendur Guðmundar saga byskups næst á eftir upphafssögum handritsins Mikjáls sǫgu hǫfuðengils, Maríu sǫgu egypzku og Eiríks sǫgu víðfǫrla, dæmigerðum inngangssögum miðaldabóka; með þeim er vita byskupsins sett í viðeigandi ramma hjálpræðissögunnar. – GKS 2845 4to geymir níu sumpart óheilar sögur og þætti, og er Eiríks saga víðfǫrla nú áttunda sagan í röðinni. Sýnt hefur verið fram á, að handritið hefur í öndverðu hafist með Yngvarssǫgu víðfǫrla, Eiríks sǫgu víðfǫrla og Heiðreks sǫgu, en þar á eftir fylgdu sögurnar og þættirnir, sem nú standa fremst. – Niðurstaðan af þessari athugun er því sú, að Eiríks saga víðfǫrla hefur verið skráð í miðaldahandritin fimm og henni valinn staður í inngangi þeirra – flestra ef ekki allra – til þess að fella það, sem á eftir kemur, inn í ramma hjálpræðissögunnar.

Útgáfudagur
2021-01-05
Tegund
Ritrýnt efni