Undanvillingur rekinn heim

Um „lausavísu“ Magnúsar Ólafssonar í Laufási

  • Þórunn Sigurðardóttir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
lausavísa, höfundareign, erfiljóð, Magnús Ólafsson í Laufási, Lbs 2388 4to

Útdráttur

Í útgáfu sinni á Magnúsarkveri, með kvæðum eftir sr. Magnús Ólafsson (um 1573−1636) í Laufási, birtir Anthony Faulkes lausavísu sem varðveitt er í handritinu Holm. Papp. 8vo nr 25 í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi. Hann virðist þó hafa ákveðnar efasemdir um að vísan sé réttilega eignuð Magnúsi. Í greininni eru aftur á móti færð rök fyrir því að vísan sé nær örugglega eftir Magnús ólafsson. Ekki hefur áður verið fjallað um vísuna, tilefni hennar, innihald eða form, sem þó er allsérstætt og áhugavert. Skáldið felur eiginnafn sitt, Magnús, í vísunni með því að nota heiti rúnastafa og ljóst er af orðalagi að vísan hefur veriðort sem hluti af lengra kvæði. Komið hefur í ljós að nafnavísan er uppskrifuð sem lokaerindi erfiljóðs sem varðveitt er í handriti á Landsbókasafni Íslands–Háskólabókasafni undir safnmarkinu Lbs 2388 4to. Tilgáta er sett fram um að handritið hafi verið skrifað á Norðurlandi en í handritaskrá er það eignað skrifara á Suðurlandi. Kvæðið er erfiljóð um Björn Benediktsson, son velunnara Magnúsar, Benedikts Halldórssonar. Af kvæðinu má ráða að kunningsskapur hefur verið ámilli skáldsins og viðtakenda erfiljóðsins. Það er augljóslega ort af lærðum manni sem jafnframt hefur haft áhuga á fornu íslensku skáldamáli, sem Magnús hafði óneitanlega eins og önnur erfiljóð eftir hann bera með sér sem og vinna hans við Snorra-Eddu (Laufás-Eddu) og önnur fræðastörf. Þá kemur fram í kvæðinu áhugi á talnadulspeki sem sjá má í öðru erfiljóði eftir séra Magnús. Erfiljóðið bætist hér með við útgefið heildarsafn skáldsins en auk þess er um að ræða eitt af elstu erfiljóðum sem varðveist hafa á íslensku eftir siðbreytingu.

Útgáfudagur
2021-01-05
Tegund
Ritrýnt efni