Til þess eru ill dæmi að varast þau

Um Bjarna í Efranesi í Skarðsárannál

  • Katelin Marit Parsons
Skarðsárannáll, AT 2401/ATU 1343*, annálamenning síðari alda, viðtökur annála, félagslegt og menningarlegt hlutverk annála, glæpur og refsing á árnýöld

Útdráttur

Í annálum birtist flókið samspil erlendra og innlendra frásagna og bergmál fortíðar, nútíðar og framtíðar. Atburðir sem virðast ótengdir og kaótískir við fyrstu sýn fá merkingu við niðurröðun þeirra í skipulögðu annálsformi. Annállinn felur í sér meðvitað val um frásagnarform og mikilvægt er að skilja menningarlegt og félagslegt hlutverk þess forms á hverjum tíma og stað fyrir sig. Íslenskir annálar hafa fyrst og fremst verið notaðir til þess að rannsaka innlenda viðburði en í þessari grein er sjónum beint að annálsgrein í Skarðsárannál sem er af þekktri alþjóðlegri sagnagerð (AT 2401/ATU 1343*) og sýnir hvernig óhugnaði er beitt til þess að flytja sterkan viðvörunarboðskap til viðtakenda. Sagan um bóndann Bjarna í Efranesi sem missir allt sitt fyrir að bregðast hlutverki sínu sem höfuð fjölskyldunnar er lúthersk dæmisaga þar sem engin skyndiaflausn eða jarteikn er í boði og aðeins ævilöng iðran getur gefið von um sáluhjálp. ATU 1343* þekktist einnig á Íslandi úr prentuðum erlendum ritum en birtingarmynd þess í Skarðsárannál kemur væntanlega úr munnlegri geymd. Heildarfrásögn annálsgreinarinnar er átakanleg en grunnforsenda hennar er að vítaverð hegðun einstaklings, samfélags eða jafnvel alls heimsins getur beinlínis kallað fram hirtingu í formi hörmunga. Flestir nútímaviðtakendur hafna þessari grunnforsendu án þess að hafna heimildargildi annálsgreinarinnar. Afleiðing þess er að faðir ungs bóndasonar sem dó við grunsamlegar kringumstæður í sjóróðri við Skagaströnd hefur verið bendlaður við hryllilegan glæp sem ekki nokkur fótur er fyrir. Til að fyrirbyggja slíka meðferð á raunverulegum, nafngreindum einstaklingum skiptir máli að huga vel að uppbyggingu og hlutverki annála sem frásagnarforms.

Útgáfudagur
2021-12-02
Tegund
Peer-Reviewed