Enn einn „útlenskur tónn'' í Rask 98

  • Árni Heimir Ingólfsson
Tónlistarfræði, söngur, fjölröddun, Rask 98, Melódía, Jacobus Clemens (non Papa)

Útdráttur

Handritið Rask 98 eða Melódía, sem varðveitt er á Árnasafni í Kaupmannahöfn, var ritað um 1660–70 og hefur að geyma 223 lög; skrifari bókarinnar er ókunnur. Í yfirskrift á titilsíðu stendur að í handritinu séu „Nockrer Ütlendsker Tonar med jislendskum skälldskap.“ Þar sem ekkert laganna í Rask 98 er eignað höfundi hefur leitin að uppruna þeirra reynst æði tímafrek. Í grein í Griplu árið 2012 rakti höfundur þessarar greinar uppruna fimm „útlenskra tóna“ í Rask 98 og var það allnokkur viðbót við það sem vitað var um söngforða og dreifingu laga á Íslandi á 16. og 17. öld. Nú hefur eitt lag til viðbótar komið í leitirnar, fjórradda söngurinn Godt es mijn licht eftir flæmska tónskáldið Jacobus Clemens (non Papa), fyrst prentaður í Leuven árið 1567 en í Nürnberg ári síðar við þýskan texta, Gott ist mein liecht. Aðeins í síðarnefndu útgáfunni eru síðustu tvær hendingar lagsins endurteknar, sem einnig er raunin í Rask 98. Því er þýska prentið að öllum líkindum fyrirmyndin að íslensku gerð lagsins. Textinn Englar og menn og allar skepnur líka senn er ekki þýðing frumtextans heldur frjáls útlegging á 148. Davíðssálmi. Rask 98 (og JS 138 8vo, yngra handrit sem virðist beint afrit) geymir aðeins tenórrödd lagsins. Líklega gilti hið sama um þetta lag og önnur sem þegar er vitað um, það var sungið hér á landi í fjórum röddum meðan unnt var að halda uppi slíkum söng, en neðri raddir voru enn skrifaðar upp í handrit heilli öld síðar. 

Útgáfudagur
2021-12-02
Tegund
Peer-Reviewed