Sæla og óheiðarleiki í Hávamálum

Túlkun og túlkunarsaga 8. og 9. vísu Gestaþáttar

  • Elmar Geir Unnsteinsson

Útdráttur

Margir fræðimenn hafa talið að 8. og 9. vísa Hávamála, sem ég kalla sæluvísur, gefi mikilvægar vísbendingar um siðaboðskap kvæðisins. Þó hefur túlkun og túlkunarsögu þeirra ekki verið nægilegur gaumur gefinn hingað til. Á yfirborðinu virðast sæluvísurnar fremur auðskiljanlegar en oft hefur verið bent á að hefðbundin túlkun þeirra sé afar mótsagnakennd. Í þessari grein nefni ég nokkur dæmi úr þessari túlkunarsögu og færi rök gegn ýmsum óhefðbundnum túlkunum, sérstaklega úr ranni Ivars Lindquist og Guðmundar Finnbogasonar. Ég set fram og færi ítarleg rök fyrir nýrri túlkun. Sú túlkun veltur á kerfi hugtaka – greinarmuninum á athöfn og ástandi annars vegar og geranda og þolanda hins vegar – sem varpar nýju ljósi á rökgerð sæluvísnanna. Samkvæmt þessum skilningi segir 8. vísa að sá sé sæll sem ávinnur sér meðmæli og gott orð annarra, þótt erfitt sé að breyta raunverulegum skoðunum þeirra. Seinni sæluvísa segir þá að sælan sé fólgin í því að geta reitt sig á sín eigin meðmæli og skynsemi því að ráðgjöf annarra sé oft váleg. Að endingu færi ég rök fyrir því að þessi túlkun gangi gegn þeirri algengu hugmynd að Hávamál geymi dyggðasiðfræðilegan boðskap. Öllu líklegra er að kvæðið boði einfalda sérhyggju sem beinir sjónum að möguleikum fólks til að öðlast sælu eða gleði í hörðum heimi. Merking orðsins sæla eða sæll gefur enga ástæðu til að lesa annað úr hinum upprunalega texta.
Útgáfudagur
2023-12-15
Tegund
Ritrýnt efni