Niðurlag Árna sögu biskups og dýrkun heilags Magnúsar Orkneyjajarls

Helgisögur og kirkjupólitík á Íslandi á fyrri hluta fjórtándu aldar

  • Haki Antonsson

Útdráttur

Í upphafi þessarar greinar er athyglinni beint að lokakaflanum í Árna sögu biskups, einkum kafla 147 í nýjustu útgáfu sögunnar. Þessi kafli er aðeins varðveittur í einni uppskrift sögunnar sem á rætur að rekja til ákveðins hluta í Reykjafjarðarbók sem nú er glataður. Þar segir frá þeim atburðum sem leiddu til dauða Þorvalds Helgasonar prófasts árið 1290. Greint er frá ferðalagi hans til Noregs þar sem ill öfl náðu tökum á honum. Þegar hann kemur til Færeyja nær hann sér tímabundið með aðstoð Magnúsar Orkneyjajarls og Maríu meyjar þegar hann er staddur í kirkju sem helguð er heilögum Magnúsi. Engu að síður versnar ástand Þorvalds aftur og að lokum lætur hann lífið í Noregi. Í sögunni er gefið í skyn að samband sé milli örlaga Þorvalds og svika hans við tilraunir Árna biskups Þorlákssonar til að halda hlut kirkjunnar í hinum svokölluðu Staðamálum.
Magnús Orkneyjajarl leikur mikilvægt hlutverk í þessari frásögn. Í greininni er því haldið fram að það tengist auknum áhuga á dýrkun hans sem píslarvotts í Skálholtsbiskupsdæmi, sennilega um það leyti sem Árna saga biskups var samin – annaðhvort seint á þrettándu öld eða snemma á fjórtándu öld. Líklegt er að Magnúss saga lengri hafi verið samin um þetta leyti í þessu samhengi. Í greininni eru færð rök fyrir því að áhugi íslenskra kennimanna á Magnúsi tengist afstöðu hans til kirkjunnar og baráttu hans fyrir frelsi hennar. Þessi tengsl má rekja til tólftu aldar frásagnar af ævi Magnúsar á latínu, sem dregur dám af frásögnum af ævi Tómasar Becket, þar sem lögð er áhersla á píslarvætti hans í tilraun til að verja kirkjuna. Sýnt er fram á enduróm frá sögunum af Becket í Árna sögu, sem kemur ekki á óvart þegar efni sögunnar er haft í huga og sú virðing sem píslarvotturinn frá Canterbury naut meðal kirkjunnar manna á Íslandi.
Í fyrri rannsóknum hefur verið talið að í upphaflegri gerð sögunnar ljúki henni árið 1290 eða átta árum áður en aðalpersóna hennar lést. Ástæður þess eru samt sem áður óljósar. Greinin afhjúpar hvernig atburður í lok Árna sögu biskups sem virðist ekki skipta miklu máli tengir saman mikilvæg trúarleg og vitsmunaleg atriði á þann hátt sem fyrstu áheyrendur sögunnar hafa átt auðvelt með að skilja. Þessi afmarkaða rannsókn undirstrikar hvað helgisöguhefðin var sveigjanleg og hversu auðvelt var að tengja hana á frjóan hátt við atburði og áhyggjur líðandi stundar.
Útgáfudagur
2023-12-15
Tegund
Ritrýnt efni