Háa-Þóra og Þorgerður Hölgabrúður

  • Haukur Þorgeirsson

Útdráttur

Elsta heimild sem vísar til Háu-Þóruleiks er frá lokum 17. aldar. Leiknum er síðan lýst í nokkrum smáatriðum í ritgerðinni Niðurraðan sem rituð var á 18. öld. Þar kemur fram að Háa-Þóra er gerð með því að faldur og traf er sett á staur og kvenhempa og svunta að auki. Þetta gervi er kallað goð í ritgerðinni en það orð er annars aðeins notað um heiðin goðmögn og líkneski þeirra. Í Háu-Þóruleik fer maður undir kvenhempuna í gervinu og heldur á staurnum. Hann læðist inn í gleðskapinn með staurinn flatan en tekur síðan til við að ærslast. Háa-Þóra gerir „óskunda so liggur við meiðsli“ og sækir mest að dansmanninum. Að lokum sefast hún og snáfar burtu með reiðann milli fóta sér.
Í íslenskum miðaldabókmenntum má finna gyðju eða tröll sem á sitthvað sameiginlegt með Háu-Þóru, það er að segja Þorgerði Hölgabrúði. a) Í Fyrstu málfræðiritgerðinni og Njáls sögu er tiltekið að Þorgerður sé há. b) Í Danasögu Saxa kemur fyrir Thora sem virðist vera annað nafn á Þorgerði. c) Í Njáls sögu er lýst líkneski af Þorgerði sem hefur fald. d) Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta segir frá kvenkyns trölli sem slæst leynilega í leik konungsmanna. Hún veldur meiðslum þar til einn maður, væntanlega konungurinn sjálfur, sigrar hana og hún neyðist til að draga sig í hlé. Þetta tröll segist hafa átt vingott við Hákon jarl og þegið af honum gjafir – af því má ráða að þetta sé Þorgerður Hölgabrúður. HáuÞóruleikur gæti byggst á svipaðri hugmynd og þessi kafli í sögunni og verið eins konar endursköpun á því að heiðin vættur sé knésett.
Á 17. öld voru Þóruljóð skráð úr munnlegri geymd en það er sagnakvæði undir fornyrðislagi. Þóran í kvæðinu virðist vera sama persónan og Háa-Þóra í leiknum. Í kvæðinu er Þóra há og ógnvekjandi kona sem birtist í jólaveislu hjá höfðingjanum Þorkeli. Þorkell vísar Þóru í öndvegi og gefur henni höfuðbúnað og skikkju. Við lok kvæðisins gefur Þóra Þorkeli segl sem hún hefur ofið og segir honum að það muni færa honum hamingju þegar hann siglir til orrustu. Þessi frásögn minnir á sambandið milli Hákonar jarls og Þorgerðar Hölgabrúðar í Jómsvíkinga sögu. Hákon veitir Þorgerði gjafir, jafnvel mannfórnir, og Þorgerður launar honum með því að stjórna veðri og vindum í þágu Hákonar í Jómsvíkingabardaga.
Útgáfudagur
2023-12-15
Tegund
Ritrýnt efni