Ræningjarímur séra Guðmundar Erlendssonar í Felli og erlendar fréttaballöður

  • Þórunn Sigurðardóttir

Útdráttur

Fréttaballöður eru kvæði um samtímaatburði og samtímamenn skáldanna sem prentuð voru á ódýran pappír og seld af götusölum eða flutt/sungin á torgum og strætum bæja og borga í Evrópu á árnýöld. Vitnisburð um að íslensk skáld hafi þekkt þessa dægurmenningu er að finna í handritum en kvæðagreinin hefur þó ekki verið nefnd í íslenskri bókmenntasögu. Í kvæðabók séra Guðmundar Erlendssonar er að finna nokkur kvæði sem falla undir kvæðagreinina. Kvæðin fjalla um jarðskjálfta sem varð á Ítalíu árið 1627, fall Magdeborgar árið 1631 og aftöku Karls I. Englandskonungs 1649. Kvæði Guðmundar hafa yfirbragð texta sem ætlaður er til flutnings eða söngs til að stytta mönnum stundir. Í þeim er dramatísk sviðsetning, spennandi söguþráður og siðaboðskapur sem beint er til áheyrenda í lokin. Kvæðin byggja öll á raunverulegum atburðum sem gerðust í samtíma skáldsins, þ.e. náttúruhamförum, stríðshörmungum og pólitískri aftöku. Þau eru að öllum líkindum þýðingar á evrópskum ballöðum en skáldið setur atburðina í samhengi við veruleika áheyrenda sinna á Íslandi. Kvæðin eru vitnisburður um að kvæðagreinin fréttaballaða hefur borist til Íslands ekki seinna en snemma á sautjándu öld og er ekki ólíklegt að áhrifa frá fréttaballöðum gæti víðar í íslenskum kveðskap frá síðari öldum. Það þarfnast þó frekari rannsókna.
Ræningjarímur séra Guðmundar Erlendssonar fjalla ekki um fornar hetjur eða uppdiktaðar persónur úr fjarlægri fortíð eins og algengast var í rímum á sautjándu öld heldur um hörmulega atburði úr samtíma skáldsins, hið svokallaða Tyrkjarán árið 1627. Í rímunum er slóð ræningjanna fylgt um landið, örnefni nefnd frásögninni til stuðnings og nöfn fólks sem ræningjarnir réðust á eða tóku höndum. Frásögnin er dramatísk og spennuþrungin og lýsingar á aðförum ræningjanna eru settar fram í gróteskum smáatriðum. Síðasta ríman inniheldur varnaðarorð sem beint er til áheyrenda og siðaboðskap. Hinir hræðilegu atburðir gerðust vegna óhlýðni og slæmrar hegðunar Íslendinga og brýnir skáldið samlanda sína til að hlýða drottni og biðja fyrir friði í landinu, rétt eins og hann gerði í ballöðunum. Í greininni eru færð rök fyrir því að skáldið hafi notað efnistök og sérkenni erlendra „fréttaballaða“ í rímum sínum um Tyrkjaránið.
Útgáfudagur
2023-12-15
Tegund
Ritrýnt efni