Hinn dularfulli dauði Þorsteins Kuggasonar

Ímyndunarafl höfunda og íslendingasögur

  • Joanne Shortt Butler University of Cambridge
fornbókmenntir, munnleg hefð, almæltar sögur, Íslendingasögur, persónusköpun

Útdráttur

Þorsteinn Kuggason kemur fyrir í nokkrum hinna stærri Íslendingasagna. Hann birtist þar sem aukapersóna í mikilvægum pólitískum atburðum og vísað er til hans í nokkrum vel þekktum heimildum. Þótt hægt sé að segja að Þorsteinn gegni ekki stóru hlutverki í sögunum má af ýmsu sem frá honum er sagt skynja sögulegri atburði úr lífi hans en þar koma fram, og í íslenskum annálum er skráð að hann hafi verið drepinn árið 1027. Hvergi í sögunum er lýst hvernig hann dó, en dauði hans er nefndur í Grettis sögu, og í Laxdæla sögu og Eyrbyggja sögu kemur aðeins fram að Þorsteinn er ekki lengur á lífi. Í greininni er sú mynd, sem birtist af Þorsteini í þremur tilfellum í Laxdæla sögu og Grettis sögu, endurskoðuð. Persónusköpun hans er stöðug í sögunum og staða hans í frásögninni tengist helst lýsingum á mikilvægari ættmennum hans. Áður hefur verið sett fram sú hugmynd að Þorsteinn hafi verið aðalpersóna glataðrar sögu; en Judith Jesch hefur aftur á móti haldið því fram að birting Þorsteins í söguefninu stafi frekar af „ímyndunarafli“ höfunda en því að eldri, rituð saga hafi verið til. Hér er því litið aftur til Þorsteins og lýsinga á honum út frá sjónarhorni munnlegrar hefðar og hinna almæltu sagna. Staða Þorsteins í frásögnunum í Laxdælu og Grettlu er skoðuð nákvæmlega og upplýsingar sem virðast í fljótu bragði óviðkomandi efninu eru bornar saman til að sýna fram á að hægt er að lesa þar ævi Þorsteins Kuggasonar og dauða hans í samhengi.

Útgáfudagur
2021-01-04
Tegund
Ritrýnt efni