Þrjár gerðir Jómsvíkinga sögu

  • Þórdís Edda Jóhannesdóttir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Jómsvíkinga saga, breytileiki, AM 291 4to, Holm perg 7 4to, AM 510 4to

Útdráttur

Jómsvíkinga saga er meðal elstu íslensku sagnatexta og var að öllum líkindum skrifuð fyrst snemma á 13. öld, jafnvel þegar um 1200. Sagan er varðveitt í fjórum ólíkum gerðum frá miðöldum í jafnmörgum skinnhandritum, AM 291 4to, Holm perg 7 4to, Flateyjarbók og AM 510 4to. Í Flateyjarbók hefur sagan verið löguð að Ólafs sögu Tryggvasonar í tveimur hlutum. Ýmsir hafa reynt að skýra og rekja samband varðveittra gerða með því að bera texta þeirra saman og setja fram kennngar um stemma handrita. Í þessari grein eru færð rök fyrir því að sú aðferð lýsi sambandi gerðanna ekki nægjanlega vel og að þær þurfi að meta sem sjálfstæðar einingar. Samanburður á efni þriggja sjálfstæðra gerða sögunnar sýna að þróun Jómsvíkinga sögu getur borið vitni um hugmyndir skrifara á ólíkum tíma sem og veitt innsýn í væntingar viðtakenda. Perg 7 bendir til að skrifari og mögulega viðtakendur í hans nánasta umhverfi hafi gert kröfur um hnitmiðaða og hlutlæga frásögn; virðing er borin fyrir konungum og frásögnum sem geta sýnt yfirvaldið í neyðarlegu ljósi er sleppt. Gerðin í AM 291 4to sem er aðeins eldri sýnir annars konar tilhneigingu og sagnaskemmtun virðist sett skör ofar en virðing fyrir konungsvaldi. Í AM 510, sem er ritað á 16. öld, hefur sagan verið aukin með ýmsum smáatriðum, beinni ræðu og samtölum sem breyta ekki atburðarás stórkostlega en draga upp skýrari mynd af atburðum og persónum. Það sem er aðeins gefið í skyn í eldri gerðum er sagt fullum fetum þar.
Útgáfudagur
2021-01-04
Tegund
Ritrýnt efni